600 milljónir Wikileaks kyrrsettar

Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks.
Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks. AFP

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu kyrrsetti á dögunum um 600 milljóna króna eignir Sunshine Press, sem er rekstrarfélag Wikileaks, að beiðni fyrirtækisins Data Cell. Þetta staðfestir fulltrúi sýslumanns við mbl.is.

Fyrirtækin deila nú um skiptingu 1,2 milljarða skaðabóta sem greiðslumiðlunin Valitor samþykkti að greiða fyrirtækjunum. Forsaga málsins er sú að Data Cell annaðist greiðslugátt vegna fjáröflunar Sunshine Press, rekstrarfélags Wikileaks. Árið 2011 rauf Valitor fyrirvaralaust greiðslugáttarþjónustu við fyrirtækin með tilheyrandi tekjutapi. Eftir áralöng málaferli náðist dómsátt þar sem Valitor greiddi fyrirtækjunum 1,2 milljarða króna. 

Skipt í hlutföllunum 95:5

Skyldi upphæðin skiptast svo að Sunshine Press fengi 1.140 milljónir, en Data Cell 60 milljónir. Þessi skipting var gerð að kröfu Sveins Andra Sveinssonar, lögmanns Sunshine Press. Hann var upphaflega lögmaður beggja fyrirtækja en síðar slitnaði upp úr samstarfinu og Data Cell réð sér eigin lögmenn.

Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Sunshine Press Productions.
Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Sunshine Press Productions. mbl.is/Eggert

Stuttu eftir að samkomulag við Wikileaks var í höfn fékk Data Cell samþykkta kyrrsetningarkröfu upp á um 600 milljónir króna, helming skaðabótanna, á hendur Sunshine Press að því er mbl.is hefur fengið staðfest frá fulltrúa sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt heimildum mbl.is snýst kyrrsetningarkrafan nú um ósætti um skiptingu bótafjárins og vilja fulltrúar Data Cell fá stærri hlut.

Á föstudag fór Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Sunshine Press, fram á það við sýslumann að kyrrsetningarkrafan yrði tekin upp að nýju, og var lögmönnum gefinn frestur til morguns til að skila inn greinargerð í málinu.

Allt að helmingur í málarekstur

Ágreiningur fyrirtækjanna á rætur sínar að rekja til fjármögnunar málarekstursins. Fyrst um sinn var Sveinn Andri lögmaður beggja félaga en samkvæmt heimildum DV hafði Data Cell upphaflega lagt tugi milljóna króna í málaferlin.

Er félagið gat ekki staðið frekari straum af þeim og þolinmæðin gagnvart lögmanninum þraut, hafi það ráðið sér eigin lögmenn. Sunshine Press, Wikileaks, brá þá á það ráð að fá ýmsa innlenda og erlenda fjárfesta til að fjármagna réttarhöldin gegn hlutdeild í skaðabótunum. Segir blaðið að hlutur þessara fjárfesta sé um 500 milljónir af bótakröfunni, þar af sé hlutur Sveins Andra 120 milljónir króna, að því er fram kemur í Viðskiptablaðinu. Við það bætist að fyrirtækin þurfa að öllum líkindum að greiða tekjuskatt af bótunum eins og hverjum öðrum tekjum, og því óljóst hve mikið ratar í vasa félaganna.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK