„Hefði mátt vanda betur til verka“

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, segir verðlagningu áhættu af ýmsum …
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, segir verðlagningu áhættu af ýmsum útlánum bankans ekki hafa verið réttar. Hann segir gripið til margvíslegra ráðstafanna til þess að auka arðsemi bankans. Ljósmynd/Aðsend

„Ég myndi segja að útlánatöp okkar og virðisrýrnanir vegna einstakra lánamála hafa verið of há. Þessi mál eru um margt ólík en segja má að í einhverjum tilvikum hefði mátt vanda betur til verka og að  lánin hafi ekki verið verðlögð rétt miðað við áhættu, það er alveg klárt,“ svarar Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, er mbl.is spyr um áhrif gjaldþrot stórra viðskiptavina bankans á hagnað Arion banka.

Meðal stórra viðskiptavina bankans sem hafa farið í þrot eru WOW air, Primera air, Travelco og United Silicon.

„Það er lykilatriði í rekstrinum að verðleggja áhættuna rétt, því bankar eru í því alla daga að taka áhættu,“ útskýrir hann. Spurður hvort sé að vænta stefnubreytingu í útlánastarfsemi bankans segist hann ekki vilja taka svo djúpt í árina en að bankinn sé stöðugt að vinna að umbótum í sinni starfsemi.“

Bankastjórinn kynnti á fundi í morgun uppgjör bankans á öðrum ársfjórðungi og hagnaðist bankinn um 2,1 milljarð króna, samanborið við 3,1 milljarð á sama tímabili í fyrra. Var arðsemi eigin fjár því 4,3% á ársgrundvelli, en 5,9% árið áður. Er hagnaðurinn þó umtalsvert meiri en á fyrsta fjórðungi ársins þegar hann var um milljarður.

Rekstrarkostnaður bankans hefur að undanförnu dregist saman um 2% og launakostnaður um 4%.Spurður hvort fyrirhugað sé að fækka starfsmönnum til þess að auka arðsemi bankans, svarar Benedikt: „Það eru engar sérstakar ráðstafanir fyrirhugaðar í þeim efnum.“

„Ég held að bankar séu almennt séð alltaf að reyna að hagræða eins og öll önnur fyrirtæki. Þróunin í bankaiðnaðinum er auðvitað sú að útibúum er að fækka og starfsmönnum er að fækka, við sjáum það ekki bara á Íslandi heldur út um allan heim,“ segir hann.

Bundnar eru miklar vonir við nýjar stafrænar lausnir, að sögn bankastjórans. Spurður hvort þær gera það ekki óumflýjanlegt að starfsmönnum fækki segir hann svo vera. „Nýjar stafrænar lausnir hafa auðvitað meðal annars skilað sér í fækkun starfsfólks og lokun útibúa. Sumir af okkar þjónustuliðum þurfa í dag færri hendur en áður, þetta einfaldar reksturinn.“

Vaxtagjöld stærsti kostnaðarliðurinn

Bankastjórinn nefnir ekki einstakar eignir er spurt er um hvort bankinn hyggst selja fleiri eignir en þegar hafa verið settar í söluferli. „Við erum ekki langtímaeigendur að þeim eignum sem við eignumst vegna vanskila og eins og fram kemur í efnahagsreikningnum eru nokkrar eignir í sölumeðferð. Við erum stöðugt að vinna að því að koma þeim eignum í verð,“ útskýrir Benedikt. En að auki er dótturfélag bankans Valitor í söluferli.

Hann segir marga þætti spila inn í þá vinnu að auka arðsemi bankans það sem eftir er af ári. „Stærsti kostnaðarliðurinn okkar eru vaxtagjöld og við erum að reyna að lækka þau með ráðstöfunum, borga upp fjármögnun sem er óhagstæð – eins og við vorum að gera í gær í samkomulagi við Íbúðalánasjóð – og sækja ódýrari fjármögnun með til dæmis auknum innlánum.“

Tilkynnt var í gær að Íbúðalánasjóður hafi keypt 50 milljarða króna lánasafn af Arion banka. Bankinn mun áfram þjónusta lánin.

„Svo er það kostnaðurinn, ekki bara launakostnaður líka rekstrarkostnaður hann er mikill. Síðan þurfum við auðvitað að auka tekjurnar. Þróunin hefur verið sú að tekjusköpun banka er undir þrýstingi sérstaklega þóknunartekjur og þá er alltaf tækifæri. Til dæmis er hægt að benda á tekjur Varðar, bankinn kaupir það félag fyrir nokkrum árum síðan og er framlag þess rekstrar inn í tekjumyndun bankans orðin umtalsverð,“ segir Benedikt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK