Milljarðsgreiðsla til Skúla til skoðunar

Sveinn Andri Sveinsson, annar skiptastjóra, og starfsmenn þrotabúsins.
Sveinn Andri Sveinsson, annar skiptastjóra, og starfsmenn þrotabúsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skiptastjórar WOW air eru með til skoðunar 8 milljóna dala greiðslu WOW air til móðurfélagsins Títans ehf., sem er alfarið í eigu Skúla Mogensen fyrrverandi forstjóra WOW í nóvember 2017. Í úttekt sem endurskoðunarskrifstofan Deloitte vann að beiðni skiptastjóra kemur fram að erfitt sé að greina „viðskiptalegar forsendur að baki svo hárri þóknun“ og taka skiptastjórar undir með endurskoðunarskrifstofunni.

Þrotabúið hefur þegar farið fram á að 108 milljóna króna greiðslu WOW til Títans verði rift á þeim forsendum að engar viðskiptalegar forsendur hefðu verið fyrir ótímabærri greiðslu til félagsins, með tilliti til hagsmuna WOW air.

Forsaga fyrrnefnds máls er sú að WOW air leigði fjórar flugvélar af tveimur fyrirtækjum, vélarnar TF-DAD og TF-MOM af írska fyrirtækinu Moonsun Leasing Ltd., og vélarnar TF-SON og TF-KID af fyrirtækinu Hawk Bay. Síðar gerði Títan ehf., móðurfélag WOW sem er í eigu Skúla, samning við bæði félög um kauprétt að vélunum fjórum, en ekkert gjald var greitt fyrir kaupréttinn sjálfan, þ.e. réttinn að því að geta á einhverjum tímapunkti keypt vélarnar (og þá vitanlega gegn gjaldi).

Samhliða var þó gerður samningur milli WOW og Títan um rétt WOW um rétt WOW til að kaupa vélarnar af Títan, og var hann í meginatriðum samhljóða samningi Títans við erlendu fyrirtækin tvö, að því er fram kemur í samantekt á skýrslu skiptastjóra sem dreift var á skiptafundi WOW air í dag.

Vekur athygli skiptastjóra að WOW var gert að greiða Títan 3 milljónir dolla á hverja vél fyrir kaupréttinn. Hér er ekki átt við greiðslu fyrir vélarnar, heldur einungis greiðslur fyrir það að mega, á einhverjum tímapunkti, kaupa þær. Skyldi það skiptast svo að 1 milljón dala á vél væri greidd 30. júní 2017 og var samið um að sú greiðsla væri ekki afturkræf hvort sem WOW gengi síðar að kaupunum eða ekki.

Þá bar WOW að greiða tvær milljónir dollara fyrir kauprétt að hverri vél sem það hygðist síðan kaupa, og skyldi það greitt eigi síðar en þann dag er gengið væri frá kaupum.

Á hluthafafundi í nóvember 2017 var ákveðið að WOW air skyldi greiða Títan fyrir kaupréttinn, og voru 8 milljónir dala (2 milljónir á hverja vél) greiddar með hlutafé í WOW. Þrátt fyrir það nýtti félagið sér ekki kaupréttinn fyrr en rúmu ári síðar, og hafði því greitt 8 milljónir dala ári áður en ástæða var til. 

Er vélarnar voru að endingu keyptar er ljóst að WOW hafði um skeið átt í miklum fjárhagserfiðleikum, en fram kom á skiptafundi að mat endurskoðenda væri að WOW hefði verið ógjaldfært eigi síðar en um mitt ár 2018. Hefði félagið sennilega haft gott af 8 milljóna dala lausafé, jafngildi tæps milljarðs króna, á þeim tímapunkti.

Boðað hefur verið til næsta skiptafundar 10. október kl. 14 á Hótel Nordica.

Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélagsins, og lögmaður sátu fundinn.
Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélagsins, og lögmaður sátu fundinn. mbl.is/Kristinn Magnússon
Skiptafundur Wow air var haldinn á Hótel Nordica í dag.
Skiptafundur Wow air var haldinn á Hótel Nordica í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK