Vilja rifta 108 milljóna greiðslu til Skúla

Frá fundinum á Nordica Hilton.
Frá fundinum á Nordica Hilton. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skiptastjórar WOW air gera kröfu um að tæplega 108 milljóna króna greiðslu WOW air til félagsins Títan hf., sem er í eigu Skúla Mogensen, verði rift. Þetta kemur fram í samantekt á skýrslu skiptastjóra sem liggur fyrir skiptafundi félagsins, en hann stendur nú yfir á Hótel Nordica.

WOW og Títan gerðu síðasta sumar með sér samning þar sem WOW keypti af Títan 3,6 milljóna króna hluti að nafnverði í félaginu Cargo Express ehf. (CE). Skyldi kaupverð vera rúmir 2,1 milljarðar króna og greitt fyrir að mestu með hlut í WOW, en þó einnig með 150 milljóna króna eingreiðslu á gjalddaga 30. apríl 2019, sem þó var þeim skilyrðum bundið að hún yrði ekki hærri en arðgreiðslur CE á sama tímabili. Er það niðurstaða úttektar endurskoðunarfyrirtækisins KPMG að umsamið kaupverð væri í samræmi við verðmæti félagsins.

Skúli Mogensen, var forstjóri WOW air. Hann gerir kröfur í …
Skúli Mogensen, var forstjóri WOW air. Hann gerir kröfur í búið, en þrotabúið sjálft vill fá 108 milljóna króna endurgreiðslu. mbl.is/RAX

WOW fékk í febrúar síðastliðnum greiddar tæpar 108 milljónir króna í arð frá CE. Samkvæmt ákvæðum kaupsamnings bar WOW því að greiða Títan sömu fjárhæð, 108 milljónir, með eindaga þann 30. apríl 2019. Á þeim tíma va WOW air í miklum fjárhagserfiðleikum, hafði safnað upp milljarðaskuldum við flugvélaframleiðendur og Isavia.

Engu að síður var sú ákvörðun tekin að greiða kröfuna samdægurs, tæpum þremur mánuðum fyrir gjalddaga, að því er virðist til að tryggja greiðslu til félags Skúla.

Með vísan til 134. greinar gjaldþrotalaga lýsti þrotabúið yfir riftun á ofangreindri greiðslu til WOW til Títan og þess krafist að Títan, félag Skúla, endurgreiddi kröfuna.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK