Allrahanda tapaði hálfum milljarði

Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Allrahanda, segir samkeppni mikla á markaði fólksflutninga.
Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Allrahanda, segir samkeppni mikla á markaði fólksflutninga. mbl.is/Árni Sæberg

Ferðaþjónustufyrirtækið Allrahanda GL, sem rekur Gray Line og Airport Express, tapaði 517 milljónum króna á síðasta ári. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins. Tapið rúmlega tvöfaldaðist frá fyrra ári, er það var 195 milljónir króna.

Tekjur fyrirtækisins námu um þremur milljörðum króna, 700 milljónum minna en árið 2017, og rekstrargjöld 3,4 milljörðum, rúmum hálfum milljarði minna en árið áður. Eigið fé félagsins nemur 473 milljónum króna. Fyrirtækið hefur dregið saman seglin undanfarið ár og sagt upp fjölda bílstjóra.

Harðnandi samkeppni

Uppgjörið tekur til síðasta árs og því ljóst að ekki má skella skuldinni á fall WOW air með tilheyrandi fækkun ferðamanna. Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Allrahanda, segir niðurstöðuna viðbúna. Mikil samkeppni sé á markaði fólksflutninga þar sem rútufyrirtæki eigi í innbyrðis samkeppni en keppi auk þess við bílaleigur, sem hafi aukið markaðshlutdeild sína verulega á undanförnum árum.

Í samtali við mbl.is fyrr í sumar benti Þórir á að hlut­fall er­lendra ferðamanna sem leigi bíla­leigu­bíl í Leifs­stöð við kom­una til lands­ins hafi auk­ist úr 40% í 60% á nokkr­um árum. Á sama tíma hafi auk­in sam­keppni haft í för með sér að verð á vin­sæl­um ferðum, svo sem Gullna hringn­um, hafi lækkað þrátt fyr­ir að full­ur 24% virðis­auka­skatt­ur hafi verið lagður á rútu­ferðir frá ár­inu 2016.

Allrahanda og Reykjavík Sightseeing Invest óskuðu í síðasta mánuði eftir leyfi frá Samkeppniseftirlitinu til sameiningar, og bíða þau enn úrskurðar þess. „Sameiningarhugmyndin er ekki eingöngu til komin vegna slæmrar niðurstöðu nú, en það liggur fyrir að við teljum fjárhagslega hagkvæmt að sameina þessi tvö fyrirtæki,“ segir Þórir, en bæði fyrirtæki töpuðu fé í fyrra.

Spurður út í yfirstandandi ár segist Þórir ekki vera svartsýnn. Hins vegar taki tíma að „trimma“ svo stórt fyrirtæki niður. Hann segir sumarið hafa gengið vel og haustið líti ágætlega út. Þá sé hann bjartsýnn fyrir komandi ár.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK