Hófst af sjálfum sér til auðs og umsvifa

Líklegt er að Jysk eigi lengi eftir að halda nafni …
Líklegt er að Jysk eigi lengi eftir að halda nafni Larsens á lofti. AFP

Danir syrgja nú litríkasta og vinsælasta kaupsýslumann sinn, Lars Larsen. Hann lést á heimili sínu í Silkeborg á Jótlandi á mánudaginn, 71 árs gamall, eftir að hafa barist við krabbamein um nokkurt skeið. Larsen var talinn þriðji ríkasti maður Danmerkur með eignir upp á um 50 milljarða danskra króna, næstum þúsund milljarða íslenskra króna. Var auðlegð hans einkum sprottin af velgengni hins kunna fyrirtækis hans, Jysk, sem velti um 30 milljörðum danskra króna á síðasta rekstrarári. Larsen stofnaði mörg önnur fyrirtæki en þau hafa átt misjöfnu gengi að fagna.

Af fátækum kominn

Larsen fæddist ekki með silfurskeið í munni. Foreldrar hans voru af fátæku fólki komnir en urðu bjargálna fyrir dugnað og framtakssemi. Stunduðu þau kartöflurækt á býli sínu við þorpið Arnborg á Mið-Jótlandi. Faðir Larsens lést áður en hann fæddist í ágúst 1948 og stóð móðir hans þá uppi með fjögur ung börn. Neyddist hún til að selja jörðina. Hún kom þó fótum undir fjölskylduna að nýju með rekstri sælgætisverslunar þar sem börnin afgreiddu með henni, en lífið einkenndist af basli og sótti þunglyndi að henni og gerði hana loks óvinnufæra. Þessar aðstæður urðu til þess að Larsen strengdi þess heit að brjótast úr viðjum fátæktarinnar.

Skólagöngu hans lauk þegar hann var 16 ára og byrjaði hann þá að vinna í verslun sem seldi rúmföt, sængur, dýnur og kodda og ýmsar aðrar heimilisvörur. Fljótt tóku húsbændur hans eftir hugkvæmni hans við sölu og auglýsingar. Löngunin til að vera sjálfstæður og láta til sín taka blundaði alltaf í honum. Eftir að hafa starfað í rúmfataverslunum í fimmtán ár stofnaði hann vorið 1979 með tveimur vinum sínum verslun með rúmföt í Árósum. Veðsetti Larsen hús sitt til að koma undir hana fótunum. Fyrirmyndir sótti hann meðal annars til IKEA í Svíþjóð og Aldi-verslunarkeðjunnar þýsku.

Nýja verslunin var til húsa í stórri vöruskemmu fyrir utan borgina og nefnd Jysk sengetøjslager. Nú heitir hún einfaldlega Jysk. Sérkenni hennar var – og er enn – ódýrar og einfaldar vörur og margvísleg tilboð. Vörur voru í byrjun hafðar á brettum og ekkert lagt í innréttingar. Þaðan er lager-heitið komið. Fáir voru við afgreiðslu, en verslunin sló í gegn strax í upphafi og boltinn byrjaði að rúlla. Nú eru verslanir sem reknar eru undir heiti Jysk í Danmörku rétt innan við 100 og á þriðja þúsund utanlands. Samstarfsverslanir eru 23 þúsund í 52 löndum. Fyrirtækið er alþjóðlegt viðskiptaveldi. Aðalsöluvörurnar eru þó eins og í upphafi rúmföt, dýnur, sængur, koddar, gluggatjöld, húsgögn og tengdar vörur fyrir heimilin.

Sonur Larsens, Jacob Brunsberg, tók yfir stjórn eignarhaldsfélags Jysk-verslananna í sumar sem leið þegar skýrt var frá veikindum Larsens. Þá lá ljóst fyrir að hann fengi ekki bót meina sinna og kaus hann að verja síðustu mánuðunum með fjölskyldunni á heimili sínu.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK