Markaður netverslana sexfaldast

Mynd frá sumarmarkaði netverslana. Frá vinstri, Sara Björk Purkhús, Eyrún ...
Mynd frá sumarmarkaði netverslana. Frá vinstri, Sara Björk Purkhús, Eyrún Anna Tryggvadóttir og Olga Helena Ólafsdóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Markaður sem byrjaði með 12 netverslunum í Síðumúlanum hefur nú sexfaldast og er orðinn að viðburði sem er haldinn fjórum sinnum yfir árið. Markaðurinn, sem í þetta skiptið ber titilinn Haust Pop-up!, verður í Víkingsheimilinu um helgina, 31. ágúst og 1. september og verða um 60 verslanir á svæðinu. 

Olga Helena Ólafsdóttir, verslunareigandi og einn helst skipuleggjandi markaðanna, segir að áhuginn hafi verið mikill frá byrjun. 

„Það eru ekkert allir sem eru spenntir fyrir því að kaupa á netinu án þess að sjá vörurnar, til dæmis eldri kynslóðin. Þarna er hægt að koma og skoða vöruna og þarna er líka tækifæri fyrir verslanir til þess að vera uppgötvaðar, það skiptir svo miklu máli,“ segir Olga.

Íbúar Latabæjar mættu á síðasta markað og mæta aftur um ...
Íbúar Latabæjar mættu á síðasta markað og mæta aftur um helgina. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það eru svo margir sem mæta og eru að versla á netinu en hafa kannski ekki séð allar þessar verslanir. Þegar við byrjuðum að halda þetta þá voru fullt af verslunum sem höfðu samband og ég hafði aldrei séð.“

Hefðbundnar verslanir fá að vera með

Áður fyrr voru einungis netverslanir á markaðnum en nú fá fleiri að komast að. „Við höfum hingað til alltaf auglýst markaðinn sem markað netverslana en eftir síðasta markað fengum við svo mikið af fyrirspurnum frá öðrum verslunum og heildsölum sem vildu vera með,“ segir Olga sem bendir á að á meðal verslana á markaðnum séu verslanir sem eru staðsettar í mekka íslenskrar verslunar, Kringlunni. 

„Þau sjá hvað það mæta margir og átta sig á því að þetta er frábær vettvangur til að kynna sig.“ 

Á markaðnum kennir ýmissa grasa.
Á markaðnum kennir ýmissa grasa. mbl.is/Ómar Óskarsson

Á síðasta markað mættu um 20.000 manns og vonast Olga til þess að þessi markaður verði enn stærri enda haustmarkaðurinn sá vinsælasti. Auk hans eru haldnir yfir árið jólamarkaður, sumarmarkaður og barnamarkaður sem er nýr af nálinni og verður haldinn í október. 

Á markaðnum verða verslanirnar flestar með tilboð og afslætti á sínum vörum. Íbúar Latabæjar mæta á markaðinn og verður hoppukastali á svæðinu fyrir börnin. Svangir munu geta gripið sér bita í matarvögnum sem verða á svæðinu en markaðurinn stendur yfir frá ellefu til fimm bæði á laugardag og sunnudag.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK