Bankarnir standa frammi fyrir ýmsum áskorunum

Hinir þrír íslensku kerfislega mikilvægu bankar.
Hinir þrír íslensku kerfislega mikilvægu bankar. Samsett mynd

Staða hinna þriggja íslensku kerfislega mikilvægu banka, þ.e. Arion banka, Íslandsbanka og Landsbanka, er að mörgu leyti góð og eru þeir fjárhagslega sterkir. Framundan eru hins vegar krefjandi aðstæður.

Þetta segja sérfræðingar hjá Fjármálaeftirlitinu, þeir Finnur Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri bankasviðs, Elmar Ásbjörnsson, forstöðumaður áhættugreiningar á bankasviði og Skúli Magnússon, sérfræðingur í fjárhagslegu eftirliti, í sameiginlegri grein sinni Staða íslensku bankanna og helstu áskoranir framundan sem birtist í vefriti Fjármálaeftirlitsins.

Í greininni fjalla þeir um rekstur og efnahag þessara þriggja banka sem Fjármálastöðugleikaráð hefur skilgreint sem kerfislega mikilvæga eftirlitsskylda aðila vegna stærðar og eðlis starfsemi þeirra.

Aðlögun að nýjum reglum tímafrek og kostnaðarsöm

Þá er fjallað um helstu áskoranir sem bankarnir standa frammi fyrir og eru þær taldar upp í níu töluliðum. Þar nefna þeir meðal annars skyndilegar breytingar á efnahagshorfum, áhrif sértækra skatta og opinberra gjalda og frekari breytingar á reglum um starfsemi fjármálafyrirtækja í Evrópu.

Um breytingar á reglum um starfsemi fjármálafyrirtækja í Evrópu skrifa þeir meðal annars:

„Í alþjóðlegum samanburði má segja að hinir þrír kerfislega mikilvægu íslensku bankar séu smáir. Þrátt fyrir það eru gerðar ríkar kröfur til þeirra vegna hins kerfislega mikilvægis þeirra hérlendis, kröfur sem almennt eru gerðar til mun stærri banka annars staðar í Evrópu. Alþjóðlega fjármálakreppan hefur leitt til þess að reglur um starfsemi banka og verðbréfafyrirtækja hafa breyst mikið. Aðlögun að nýjum reglum getur verið bæði tímafrek og kostnaðarsöm. Framundan eru enn frekari breytingar.“

Helstu áskoranir að þeirra mati eru:

1. Skyndileg breyting á efnahagshorfum
2. Ófullnægjandi arðsemi
3. Lækkun rekstrarkostnaðar
4. Áhrif sértækra skatta og opinberra gjalda
5. Breyting á fjármagnsskipan
6. Samkeppni frá fjártæknifyrirtækjum og aukin áhersla á stafrænar lausnir
7. Frekari breytingar á reglum um starfsemi fjármálafyrirtækja í Evrópu
8. Netógn (e. cyber risk)
9. Eignarhald bankanna

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK