WOW í loftið á ný í október

Michelle Roosevelt Edwards, stjórnarformaður USAerospace Associates LLC.
Michelle Roosevelt Edwards, stjórnarformaður USAerospace Associates LLC. mbl.is/Árni Sæberg

WOW air mun fljúga að nýju í október að því er fram kom á blaðamannafundi Michelle Roosevelt Edwards, stjórnarformanns félagsins, á Grillinu á Hótel Sögu nú skömmu fyrir klukkan tvö. Roosevelt Edwards er sú sama Michelle og ViðskiptaMogginn tók viðtal við, en þá kynnti hún sig undir nafninu Michelle Ballarin. Roosevelt Edwards er skírnarnafn hennar.

Endanlegt samkomulag hefur náðst milli USAerospace Associates LLC og skiptastjóra þrotabús WOW air um kaup félagsins á þeim eignum þrotabúsins sem tilheyra WOW-vörumerkinu, að því er fram kom á blaðamannafundinum. 

Í fréttatilkynningu vegna málsins kemur fram að USAerospace sé bandarískt eignarhaldsfélag sem sérhæfir sig í fluggeiranum. Innan félagsins er víðfeðm þekking og umtalsverð reynsla í flugrekstri, viðhalds- og viðgerðarþjónustu, breytingum og endurnýjun innréttinga og búnaðar í flugvélum og sérhæfðri flugvélatengdri ráðgjöf til flugvélaframleiðenda um frumhönnun og framleiðsluþróun nýs tækjabúnaðar, starfsmannaráðningar o.fl. 

„USAerospace tengist viðamiklu alþjóðlegu farþegaflugi auk vöruflutningaflugs bæði innanlands í Bandaríkjunum og á milli landa,“ segir í tilkynningunni.

Roosevelt Edwards verður einnig stjórnarformaður WOW AIR LLC, en félagið mun hafa höfuðstöðvar á Washington Dulles-alþjóðaflugvellinum með aðstöðu á flugvellinum í Keflavík og skrifstofu í Reykjavík. „Í stjórnendateymi WOW verður m.a. Charles Celli, COO (rekstrarstjóri) hjá USAerospace. Hann hefur aflað sér víðtækrar reynslu í fluggeiranum í meira en 40 ár, m.a. í mismunandi stjórnunarstöðum hjá McDonnell Douglas, Boeing, General Dynamics Aerospace, GDC Technics og Gulfstream Aerospace Corporation,“ segir í tilkynningunni.

Haft er eftir henni í tilkynningunni að endurvakinn flugrekstur WOW skipti almenning á Íslandi og sömuleiðis í Bandaríkjunum miklu máli og muni efla bæði menningarleg og viðskiptaleg tengsl á milli Reykjavíkur og Washington. „Við hyggjumst auka umsvifin í farþegafluginu með fleiri flugvélum áður en sumarið heilsar okkur. Frá fyrsta degi í vöruflutningunum, sem einnig munu hefjast á næstu vikum, munum við leggja mikinn metnað í vandaða þjónustu á sviði vöruflutninga með ferskt íslenskt sjávarfang á Bandaríkjamarkað,“ segir Roosevelt Edwards.

Ballarin komst í fréttir hérlendis í sumar þegar hún upplýsti, í eftirminnilegu viðtali við ViðskiptaMoggann, að hún hygðist endurreisa WOW air eftir fall félagsins. Síðar var greint frá riftun kaupanna vegna dráttar á greiðslu af hendi Ballarin, en hún tilkynnti í kjölfarið að hún stefndi áfram að endurreisn félagsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK