Forstjóri Nissan hættir vegna fjármálahneykslis

Hiroto Saikawa.
Hiroto Saikawa. AFP

Stjórn bifreiðaframleiðandans Nissan hefur beðið forstjóra fyrirtækisins, Hiroto Saikawa, að segja af sér í kjölfar hneyklis sem uppgötvaðist varðandi kaupaukagreiðslur til hans. Stjórnarformaður Nissan, Yasushi Kimura, segir að Saikawa muni hætta 16. september.

BBC greinir frá málinu.

Tilkynningin um starfslok forstjórans kom í kjölfar fundar hjá stjórn Nissan sem boðað var til eftir að upp komst að forstjórinn hefði fengið kauprétt á hlutafé Nissan í gegnum kaupaukakerfi fyrirtækisins sem nam hundruðum þúsunda bandaríkjadala.

Saikawa hefur viðurkennt að hafa þegið kaupréttinn og hann hafi fengið of mikið í sinn hlut en neitar því að hafa gert nokkuð rangt. Hann hefur lofað að skila fjárhæðinni sem hann fékk í sinn hlut sem er talin vera rúmlega 440 þúsund dalir eða um 55 milljónir íslenskra króna.

Kaupaukakerfi Nissan var, eins og hjá mörgum stórum hlutafélögum, tengt við gengi hlutabréfa fyrirtækisins á ákveðnu tímabili. Saikawa er sagður hafa frestað greiðslu á sínum kaupauka um viku til þess að eiga rétt á auknum kauprétti.

„Eftir fundinn bað stjórnin hr. Saikawa að stíga niður úr starfi forstjóra fyrirtækisins. Hr. Saikawa samþykkti það,“ sagði stjórnarformaðurinn Yasushi Kimura við fjölmiðla. Nissan vonast til þess að ráða eftirmann Saikawa fyrir lok októbermánaðar.

Hneykslið kemur upp á viðkvæmum tímapunkti fyrir bifreiðaframleiðandann en það er einungis tæpt ár síðan fyrrverandi stjórnarformaður hans, Carlos Ghosn, var handtekinn, í nóvember á síðasta ári. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK