Viaplay til Íslands á næsta ári

NENT Group segist ætla að hefja sölu á áskrift að …
NENT Group segist ætla að hefja sölu á áskrift að Viaplay á Íslandi næsta ári. Mynd/NENT Group

Nordic Entertainment Group (NENT) hefur ákveðið að hefja starfsemi hér á landi og bjóða Íslendingum áskrift að efnisveitunni Viaplay á fyrri helmingi næsta árs. Með starfseminni hér verður Viaplay í boði alls staðar á Norðurlöndunum, en fyrirtækið er með 1,4 milljónir áskrifenda á svæðinu, að því er fram kemur í fréttatilkynningu á vef fyrirtækisins sem birt var í dag.

Þar segir að áskriftir á Íslandi verði bæði í boði í gegnum bein viðskipti og í gegnum þriðja aðila. Upplýsingar um afþreyingarefni sem verður í boði og verð auk nánari útlistunar á því hvenær Viaplay verður aðgengilegt Íslendingum koma síðar.

NENT bendir á að Íslendingar séu meðal þeirra þjóða sem hafi bestu nettengingarnar og 75% heimila hafi 1Gbit/s tengingu. Þá er sagt að stefna ríkisstjórnarinnar sé að tryggja að 99% heimili og fyrirtæki hafi aðgang að nettengingu sem sé með 100Mbit/s hraða fyrir árið 2022.

„Sem afleiðing af þessu er Ísland fullkominn markaður fyrir Viaplay,“ segir í tilkynningunni.

Viaplay er ein þeirra efnisveitna sem tryggðu sér sýningarréttinn á íslensku þáttunum Stellu Blómkvist í fyrra. Auk hefðbundinna þátta og kvikmynda eru einnig sýndir ýmiss konar íþróttaviðburðir, svo sem NHL, NFL, UFC og fleira.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK