Hlutfall nýbygginga hefur lækkað

mbl.is/Hjörtur

Hlutdeild nýbygginga í kaupsamningum það sem af er ári nemur 11% og hefur lækkað nokkuð frá því í fyrra að því er segir í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs í september samkvæmt fréttatilkynningu. Þar segir að þetta sé fyrsta lækkunin í hlutfalli nýbygginga frá árinu 2010, en á árunum 2010-2018 hafi hlutfallið aukist úr 3% í 15%. Sú fjölgun hafi þó ekki náð að lækka meðalaldur íbúða í kaupsamningum, sem hækkað hefur úr 28 árum í 36 frá árinu 2007.

„Samhliða auknum fjölda nýbygginga lækkaði verðmunur þeirra og annarra íbúða úr 30% niður í 9% á á árunum 2014 til 2018, sem gefur til kynna minnkandi arðsemi. Á síðustu tveimur árum hefur meðalsölutími nýrra íbúða einnig aukist og hlutfall þeirra sem seljast undir ásettu verði hækkað á höfuðborgarsvæðinu. Allt þetta bendir til þess að virkari samkeppni sé nú á markaði nýbygginga, kaupendum í hag.“

Ennfremur segir að á síðustu tíu árum hafi byggðum íbúðum fjölgað um rúmlega 11% á landsvísu, en fjölgunin sé hlutfallslega mest á Suðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu og minnst á Austurlandi og á Vestfjörðum. Sterk fylgni sé á milli uppbyggingar atvinnuhúsnæðis og vaxtar atvinnutekna annars vegar og fjölgunar íbúðahúsnæðis hins vegar, en í sumum sveitarfélögum hafi þó fáar íbúðir verið byggðar þrátt fyrir hærri atvinnutekjur og aukið atvinnuhúsnæði.

„Eftir að hafa minnkað samfellt fyrstu fjóra mánuði ársins jukust íbúðalán í maí, júní og júlí. Samhliða því hefur tegund íbúðalánanna breyst á þessum mánuðum, en bankalán á breytilegum vöxtum hafa sótt í sig veðrið. Flest lánanna á síðustu þremur mánuðum voru tekin á breytilegum vöxtum, sem er viðsnúningur frá fyrri mánuði ársins þegar meirihluti lánanna var tekinn á föstum vöxtum,“ segir ennfremur.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK