„Upplýsum ekki um smáatriði“

Michele Roosvevelt Edwards (áður Ballarin) tilkynnti um áform sín fyrir …
Michele Roosvevelt Edwards (áður Ballarin) tilkynnti um áform sín fyrir helgi. Fullyrt hefur verið að nýtt félag hafi flugrekstrarleyfi, en ekki finnast gögn þess efnis. mbl.is/Árni Sæberg

Ekkert flugrekstrarleyfi hefur verið veitt af hálfu bandarískra yfirvalda fyrir arftaka WOW air ef marka má gagnagrunn bandarískra yfirvalda. Jafnframt hefur flugmáladeild bandaríska samgönguráðuneytisins ekki fengið neina umsókn um slíkt leyfi, en þeim ber að birta það í gagnagrunninum sem aðgengilegur er almenningi.

Einnig hefur nýju félagi undir merkjum WOW ekki verið úthlutað lendingartíma á Keflavíkurflugvelli.

Gunnar Steinn Pálsson almannatengill fullyrti í samtali við mbl.is fyrr í dag að bandarískt flugrekstrarleyfi væri í höfn. Er hann er spurður hvaða skýring sé að baki því að útgefið flugrekstrarleyfi eða umsókn um slíkt leyfi sé ekki að finna í gagnagrunninum svarar hann: „Við ætlum ekki að upplýsa um öll smáatriði.“

Hann segir víst að flugrekstrarleyfi sé í höfn. Er hann er spurður hvaða félag sé skráð fyrir leyfinu segir hann ekki tímabært að upplýsa hvaða flugrekstraraðili sé handhafi þess.

Þrjú félög hafa komið við sögu í tengslum við Michele Ballarin og endurreisn WOW air; USAerospace Associates LLC, WOWAIR LLC og Oasis Aviation Group (eigandi USAerospace Associates).

Er Gunnar Steinn er spurður hvort það sé annar aðili en þau fyrirtæki sem þegar hafa komið við sögu endurreisnar WOW air svarar hann: „Eins og ég segi ætlum við ekki að fara út í öll smáatriði í fjölmiðlum.“ Kveðst hann með þessu ekki vera að taka afstöðu til þess hvort um annan flugrekstraraðila sé að ræða eða ekki.

Engar niðurstöður

Öll gögn sem tengjast umsóknum um flugrekstrarleyfi í Bandaríkjunum ber að birta þegar þær berast þarlendum yfirvöldum á reglugerðarvef alríkisins (e. federal government). Hið sama varðar allar ákvarðanir um útgáfu slíkra leyfa.

Þegar leitað er að þeim þremur félögum sem nefnd hafa verið í sambandi við nýtt WOW air-félag í bandaríska gagnagruninum finnast engar leitarniðurstöður.

Ekki er heldur að finna gögn er tengjast eiganda félaganna, Michele Ballarin, sem einnig er þekkt undir nöfnunum Michele Lynn Golden-Ballarin og Michele Roosevelt Edwards.

Ekki með lendingartíma

Gunnar Steinn lýsti því einnig fyrr í dag að enn stæði til að hefja sölu flugmiða með WOW air milli Bandaríkjanna og Íslands á næstu dögum, auk þess sem flug myndi hefjast í október.

Í svari Airport Cooordination við fyrirspurn mbl.is hefur nýju WOW-félagi ekki verið úthlutað lendingartíma við Keflavíkurflugvöll í október.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK