Vaxtalækkanir skili sér í húsnæðisverð

Gunnar Bjarni Viðarsson, sérfræðingur í greiningardeild Arion banka.
Gunnar Bjarni Viðarsson, sérfræðingur í greiningardeild Arion banka. Ljósmynd/Aðsend

Gera má ráð fyrir að vaxtalækkanir Seðlabanka hafi áhrif á húsnæðisvexti almennt. Slíkar vaxtalækkanir gætu þrýst húsnæðisverði upp á við. Þetta er mat Gunnars Bjarna Viðarssonar, sérfræðings í greiningardeild Arion banka.

Gunnar telur þó að aðrir þættir skipti meira máli er kemur að húsnæðisverði. „Það hafa átt sér stað miklar verðhækkanir á fasteignum undanfarin ár, eins og allir vita. En þótt byggingarmarkaðurinn hafi farið hægt af stað rétt eftir hrun þá hefur hann heldur betur tekið við sér og nú verið að byggja um 2.000-2.200 íbúðir á ári,“ segir Gunnar.

Hann bætir við að vísbendingar séu um að bankarnir hafi verið að herða á reglum um útlán til byggingargeirans og geri nú ríkari kröfur um að fyrirtæki hafi fengið greitt fyrir fyrri verkefni áður en lánað er fyrir nýjum. „Við höfum ekki séð það hafa áhrif á fjölda nýbygginga enn, en svo virðist sem færri verkefni séu á byrjunarstigi og það gæti haft áhrif á földa nýbygginga eftir einhver ár.“

2.000-2.200 nýbyggingar fara nú í sölu á ári á höfuðborgarsvæðinu.
2.000-2.200 nýbyggingar fara nú í sölu á ári á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

1% stýrivaxtalækkun frá vori, og meiri mögulega í vændum

Greint var frá því í Morgunblaðinu í morgun að útlit væri fyrir vaxtalækkanir á mörkuðum næstu misserin. Seðlabankinn hefur lækkað meginstýrivexti þrívegis frá vori, um eitt prósentustig, og eru þeir nú 3,5% en enn gera menn ráð fyrir frekari lækkunum þrátt fyrir niðursveiflu í hagkerfinu, ólíkt því sem oft hefur tíðkast hérlendis.

Haft er eftir Jóni Bjarka Bentssyni, aðalhagfræðingi Íslandsbanka, að allar líkur séu á að ríkissjóður Íslands muni geta sótt sér erlend lán á hagstæðari kjörum en tíðkast hefur, en þau myndi grunn fyrir verðlagningu á öðrum erlendum skuldum, þar með talið hjá fyrirtækjum eins og Landsvirkjun og hjá bönkunum.

Gunnar segir bankana þegar hafa brugðist við lækkununum með vaxtalækkunum á húsnæðislánum. Bundnir óverðtryggðir vextir hjá Arion hafi lækkað úr 6,95% í febrúar í 6,19%, eða um 0,76 prósentustig. Á sama tíma hafa sömu kjör hjá Landsbanka lækkað úr 6,8% í 6,0% og úr 7,4% í 6,6% hjá Íslandsbanka.

Vaxtalækkanir Seðlabankans hafa sumsé ekki skilað sér að fullu til neytenda, en Gunnar segir fleira búa að baki enda fjármagni bankar sig með útgáfu sérstakra bréfa sem ráðist ekki eingöngu af ávöxtunarkröfu heldur einnig seljanleika, gæðum eignasafns og fleira. 

„Mér fyndist í sjálfu sér ekki óeðlilegt að vextirnir væru miðaðir við stýrivexti með tilteknu álagi,“ segir Gunnar og bendir á að lífeyrissjóðir hafi sumir þann háttinn á. Það sé hins vegar erfitt í framkvæmd þegar fjármálamarkaður er jafnsmár og á Íslandi, og tölfræðivinnsla í samræmi við það.

Uppfært kl. 19:55
Arion banki lækkaði nú seinni partinn húsnæðisvexti sína á óverðtryggðum lánum, bundnum í fimm ár, niður í 5,79%.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK