Tekjuafkoman jákvæð um 23 milljarða

Tekjur hins opinbera námu 1.203,6 milljörðum árið 2018, eða sem …
Tekjur hins opinbera námu 1.203,6 milljörðum árið 2018, eða sem nemur 42,8% af landsframleiðslu ársins. mbl.is/Golli

Tekjuafkoma hins opinbera var jákvæð um tæpa 23 milljarða króna árið 2018, eða sem nemur 0,8% af vergri landsframleiðslu (VLF). Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofunnar, sem segir að til samanburðar hafi afkoman verið jákvæð um 14,1 milljarð króna árið 2017. Er bætt afkoma m.a. sögð skýrast af lægri vaxta- og tilfærsluútgjöldum, taka þurfi þó tillit til þess að árið 2017 var í reikningum sveitarfélaga gjaldfærð fjármagnstilfærsla til Brúar lífeyrissjóðs upp á 32 milljarða króna.

Tekjur hins opinbera námu 1.203,6 milljörðum árið 2018, eða sem nemur 42,8% af landsframleiðslu ársins. Til samanburðar mældust tekjur hins opinbera 1.138,3 milljarðar árið 2017, eða sem nemur 43,6% af landsframleiðslu þess árs. Á verðlagi hvors árs jukust tekjur hins opinbera um 65,3 milljarða á árinu 2018, borið saman við fyrra ár eða um 5,7%.

Heildartekjur ríkissjóðs jukust um 4,8% árið 2018 samanborið við fyrra ár og námu alls 881,7 milljörðum króna. Tekjur sveitarfélaga jukust nokkuð meira, eða um 8,9% og námu alls 362,8 milljörðum króna. Voru það heildartekjur almannatrygginga sem jukust hvað mest, eða um 11,9% og námu þær alls 251,2 milljörðum króna á árinu 2018.

42,5% heildartekna vegna skatta

Skattar á tekjur og hagnað, sem eru stærsti tekjuliður hins opinbera, skiluðu 42,5% af heildartekjum þess á árinu 2018. Námu tekjur hins opinbera af tekjusköttum alls 511,7 milljörðum á árinu 2018 og jukust um 5,7% frá fyrra ári. Námu skattar af tekjum og hagnaði, sem hlutfall af landsframleiðslu, 18,2% árið 2018. Tekjur hins opinbera af sköttum á vöru og þjónustu jukust nokkru minna eða um 4,4%. Skattar á vöru og þjónustu námu 28,3% af heildartekjum árið 2018, eða 12,1% af landsframleiðslu ársins.
Útgjöld hins opinbera námu 1.180,6 milljörðum króna árið 2018 og jukust um 5% milli ára. Nam aukningin í útgjöldum ríkissjóðs 7,5%, en útgjöld sveitarfélaga jukust um 2% og útgjöld almannatrygginga um 9,5% frá fyrra ári.

Hafa ber í huga að á árinu 2017 var gjaldfærð fjármagnstilfærsla sveitarfélaga til Brúar lífeyrissjóðs upp á 32 milljarða króna. Að frádreginni þeirri fjármagnstilfærslu jukust heildarútgjöld sveitarfélaga um 11,8% á árinu 2018 samanborið við fyrra ár.

Samneysluútgjöld hins opinbera, þ.e. launaútgjöld, kaup á vöru og þjónustu og afskriftir að frádreginni sölu á vöru og þjónustu, námu 669,5 milljörðum króna, eða 23,8% af landsframleiðslu ársins 2018. Er það aukning um 8,9% milli ára. Af þess vegur launakostnaðurinn þyngst, en hann jókst um 8% frá árinu 2017.

Fjárfestingarútgjöld hins opinbera jukust þá um 41% árið 2018, en hlutfall þeirra af landsframleiðslu hefur farið hækkandi undanfarin ár og mældist 4,4% á síðasta ári. Mikill vöxtur í fjárfestingu hins opinbera skýrist meðal annars af afhendingu Hvalfjarðarganga, en á móti fjárfestingarútgjöldum tekjufærist fjármagnstilfærsla í rekstri ríkisins þannig að afhendingin hefur ekki áhrif á afkomuna.

Félagslegar tilfærslur til heimila jukust um 9,5% á árinu 2018 og námu um 6,5% af landsframleiðslu borið saman við 6,4% árið áður. Vaxtagjöld hins opinbera drógust saman um 21,4%, en sem hlutfall af landsframleiðslu námu þau 2,8% árið 2018 samanborið við 3,9% árið 2017.

17,9% í heilbrigðismálin

Einn stærsti málaflokkurinn í opinberum rekstri eru heilbrigðismálin og á árinu 2018 runnu 17,9% af útgjöldum hins opinbera í þann málaflokk. Námu heilbrigðisútgjöld hins opinbera 211,7 milljörðum króna, eða 7,5% af landsframleiðslu ársins 2018.

Útgjöld til fræðslumála voru 190,7 milljarðar króna á árinu 2018, eða 6,8% af landsframleiðslu og rann tæplega helmingur útgjalda hins opinbera til fræðslumála til grunnskólastigsins, eða sem nemur 3,3% af landsframleiðslu. Til háskólastigsins runnu 18,7% af fræðsluútgjöldum hins opinbera, eða 1,3% af landsframleiðslu, til framhaldsskólastigsins 16,2% og 10,4% til leikskólastigsins. Í heildina námu útgjöld til fræðslumála 16,2% af heildarútgjöldum hins opinbera.

Heildarskuldir 68,7% af landsframleiðslu

Peningalegar eignir hins opinbera námu 1.526 milljörðum króna í árslok 2018, eða sem nemur 54,3% af landsframleiðslu. Námu heildarskuldir hins opinbera 1.932 milljörðum króna í árslok 2018, eða sem nemur 68,7% af landsframleiðslu ársins, samanborið við 75,5% í lok árs 2017. Er þetta sjöunda árið í röð þar sem skuldir hins opinbera, sem hlutfall af landsframleiðslu, fara lækkandi en þær hafa ekki mælst lægri á þann mælikvarða í rúman áratug, eða síðan 2007.

Í árslok 2018 námu erlendar lántökur 4,5% af landsframleiðslu ársins, en hlutfall erlendra skulda hefur farið lækkandi frá 2011 þegar þær mældust mestar sem hlutfall af landsframleiðslu, eða 27,2%. Innlendar lántökur sem hlutfall af landsframleiðslu hafa einnig farið lækkandi og námu 7,3% af landsframleiðslu í árslok 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK