Furða sig á ákvörðun samkeppnisyfirvalda

Ljósmynd/Samskip

Samskip furða sig á þeirri niðurstöðu samkeppnisyfirvalda að veita Eimskipafélagi Íslands hf. og grænlenska ríkisfyrirtækinu Royal Arctic Line A/S undanþágu til umfangsmikils samstarfs í flutningum milli Íslands og Evrópu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu. Þar segir ennfremur að í samstarfinu felst m.a. rekstur á sameiginlegu siglingakerfi og samnýting á rými í flutningaskipum félaganna.

„Niðurstaða samkeppnisyfirvalda vekur furðu enda líkast til án fordæma í framkvæmd evrópskra samkeppnisreglna að tveimur markaðsráðandi fyrirtækjum, sem jafnframt eru keppinautar, sé heimilað að sameinast með þessum hætti um veigamikla þætti í rekstrinum, í því skyni að styrkja enn frekar stöðu sína á markaði. Þrátt fyrir að samstarf af þessum toga sé í brýnni andstöðu við samráðsákvæði samkeppnislaga telja samkeppnisyfirvöld rétt að veita umræddum fyrirtækjum undanþágu frá því banni.“

Samskip telja þessa ákvörðun fyrir vikið afar misráðna og til þess fallna að auka enn yfirburði Eimskips á sjóflutningamarkaði á kostnað smærri keppinauta. „Eimskip er nú þegar í markaðsráðandi stöðu á umræddum markaði, auk þess að vera í einokunarstöðu í flutningum milli Íslands og N-Ameríku. Þá felst í ákvörðuninni að erlendu ríkisfyrirtæki er með samstarfi við markaðsráðandi fyrirtæki á Íslandi gert kleift að öðlast verulega hlutdeild á markaðnum. Á sama tíma er íslenskum sjóflutningafyrirtækjum með öllu óheimilt að bjóða þjónustu sína á Grænlandi vegna sérleyfa Royal Arctic Line.“

Þá segir að Samskip fái ekki séð hvernig þessi ákvörðun geti talist í þágu samkeppni á markaði, enda sé ákvörðunin til þess fallin að styrkja verulega stöðu markaðsráðandi fyrirtækja. „Með henni er dregið úr samkeppnislegu aðhaldi, þvert á markmið grunnreglna samkeppnislaga. Samskip munu halda áfram að bjóða viðskiptavinum sínum bestu þjónustu sem völ er á hverju sinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK