Kortavelta Íslendinga dregst saman

mbl.is/​Hari

Velta innlendra greiðslukorta dróst saman um 1,1% að raunvirði milli ára í ágúst og er þetta mesti samdráttur síðan í júní 2013. Samdráttur mældist bæði í verslunum hér á landi og erlendis.

Þetta kemur fram í nýjustu Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans. 

Í ágúst mældist samdráttur upp á 0,3% milli ára í verslunum hér á landi miðað við fast verðlag og 4,4% erlendis miðað við fast gengi. Til samanburðar var vöxturinn 17% erlendis og 5% í verslunum hér á landi í ágúst í fyrra. Það er því útlit fyrir að breyting hafi orðið á neyslu Íslendinga í ljósi færri utanlandsferða, að því er bankinn greinir frá.

Þá segir, að ef horft sé til sumarsins í heild hafi kortavelta Íslendinga erlendis dregist saman um 3,3% milli ára. Til samanburðar hafi vöxturinn verið 18% yfir sumarmánuðina í fyrra og tæp 36% yfir sumarmánuði ársins 2017.

Hér á landi jókst kortavelta Íslendinga um 1,2% í verslunum yfir sumartímann, sem er þó mun minni vöxtur en á sumarmánuðum síðustu ára. Síðan í maí hefur mælst stöðugur samdráttur í kortaveltu Íslendinga erlendis sem helst í hendur við færri utanlandsferðir og ef til vill minni netverslun. Erfiðara er þó að skýra samdráttinn í veltu hér á landi yfir sumartímann. 

Þá segir, að brottfarir Íslendinga um Leifsstöð hafi í ágústmánuði verið 14% færri en á sama tíma fyrir ári. Þetta er mesti samdráttur sem hefur sést á flugferðum Íslendinga í ágústmánuði síðan 2009. Yfir sumarmánuðina voru utanlandsferðir Íslendinga samtals 10% færri en í fyrra sem er mesti árlegi samdráttur yfir sumarmánuði síðan 2009. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK