Skeljungur kaupir allt hlutafé Basko

Skrifað var undir kaupsamning vegna kaupa Skeljungs hf. á öllu hlutafé í Basko ehf. í dag. Kaupin eru gerð með nokkrum fyrirvörum m.a. um samþykki Samkeppniseftirlitsins, að því er Skeljungur greinir frá.

Kaupverðið sem Skeljungur greiðir fyrir allt hlutafé Basko nemur 30 milljónum kr. og verða yfirteknar nettó vaxtaberandi skuldir um 300 milljónir. Forsendur kaupverðsins eru grundvallaðar á upplýsingum frá seljanda, m.a. um áætlað uppgjör, að því er Skeljungur segir í tilkynningu.

Basko á fimm 10-11 verslanir og rekur fjórtán verslanir undir merkjum Kvikk sem eru reknar við bensínstöðvar Skeljungs. Þá á Basko veitingastaðinn Bad Boys Burgers & Grill, verslunina Kvosina, auk matvöruverslana í Reykjanesbæ og á Akureyri. Undanskilið frá kaupunum er 50% eignarhlutur Basko í Eldum rétt ehf. Basko er í meirihlutaeigu Horns III slhf., framtakssjóðs.

Fram kemur að Skeljungur áformi að reka Basko sem dótturfélag.

„Ráðgert er að heildareignir Basko eftir fjárhagslega endurskipulagningu nemi 1.000-1.100 m.kr. Ráðgert er að vörusala yfirtekins rekstrar á yfirstandandi rekstarári nemi 5.000-5.200 m.kr. Áhrif kaupanna á EBITDA afkomu Skeljungs á þessu ári eru metin óveruleg og ekki til þess fallin að breyta áður útgefinni EBITDA spá.

Eftir að rekstrarlegri endurskipulagningu á Basko lýkur er reiknað með að reksturinn muni hafa jákvæð áhrif á EBITDA afkomu Skeljungs sem nemur 100-200 m.kr. á ársgrundvell,“ segir í tilkynningu. 

„Við sjáum ýmis sóknarfæri með þessum kaupum. Árið 2014 samdi Skeljungur við Basko um rekstur verslana á helstu bensínstöðvum félagsins. Með kaupunum í dag tekur Skeljungur þann rekstur aftur til sín auk þess að eignast nokkrar aðrar matvöruverslanir. Með þessum kaupum erum við að bæta þjónustu við viðskiptavini Orkunnar með því að samtvinna rekstur Kvikk og Orkunnar með meira afgerandi hætti en áður. Basko hefur í gegnum góðar staðsetningar á verslunum sínum mjög sterka stöðu, til að mynda í sölu til ferðamanna. Innan félagsins er mikil þekking á rekstri þægindaverslana sem mun nýtast okkur. Með kaupum þessum stígur Skeljungur ákveðnara skref í smásölurekstri en áður hefur verið gert og horfir til enn frekari uppbyggingar á því sviði,“ segir Árni Pétur Jónsson, forstjóri Skeljungs, í tilkynningunni. 

Árni Pétur Jónsson.
Árni Pétur Jónsson.
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK