„Skilar sér beint í vasa viðskiptavinarins“

Bílabúð Benna býður upp á vaxtalaus bílalán á völdum bílum …
Bílabúð Benna býður upp á vaxtalaus bílalán á völdum bílum í takmarkaðan tíma. Mynd/mbl.is

„Vextir á Íslandi eru allt alltof háir og hafa verið alltof lengi. Við erum ekki heldur með lántökugjald, við felldum það líka niður,“ segir Benedikt Eyjólfsson, forstjóri Bílabúðar Benna, um ný vaxtalaus bílalán sem fyrirtækið býður nú upp á í samtali við mbl.is.

„Þetta skilar sér beint í vasa viðskiptavinarins,“ bætir hann við.

Bílabúð Benna hóf í dag að bjóða upp á vaxtalaus 24 mánaða bílalán fyrir allt að 80% af kaupverði valinna notaðra bíla. Á vefsíðu Bílabúðar Benna segir að um sé að ræða fjármögnun í takmarkaðan tíma og að lánin tryggi hraðari eignamyndun og lægri mánaðargreiðslur.

Benedikt segir ekki að um sé að ræða sérstaka aðgerð vegna útspils bílaumboðsins BL sem byrjaði að bjóða viðskiptavinum sínum upp á óverðtryggð bílalán á föstum 3,95% vöxtum í byrjun ágúst.

Sú fjármögnunarleið var gagnrýnd af Agli Jóhannssyni, framkvæmdastjóra Brimborgar, sem setti spurningarmerki við það hvort um raunverulega vaxtalækkun væri að ræða eða hvort um væri að ræða tilfærslu frá kaupverði yfir í lækkun á vöxtum.

Þá segir hann að það sé ekki hægt að líkja þessum nýju lánakjörum við vaxtalaus bílalán sem BL bauð upp á árið 2014 og voru gagnrýnd þar sem verð bílanna hækkaði á móti.

„Það er ekki þannig að við séum að hækka verð á bílum eins og BL gerði. Þeir hættu að gefa afslátt,“ segir Benedikt.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK