Vill hefja starfsemi WOW 2 „varlega“

Í viðtalinu við WP segist Ballarin vilja hefja starfsemina varlega.
Í viðtalinu við WP segist Ballarin vilja hefja starfsemina varlega. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tilraunir með heimasíðu WOW air hafa gengið áfallalaust fyrir sig og gæti hún farið í loftið í lok vikunnar. Þetta segir Michele Ballarin í viðtali við Washington Post. Þá og þegar geti sala á flugmiðum hafist.

Til stendur að hefja flug á milli Keflavíkur og Dulles-flugvallar, skammt frá Washington D.C. í Bandaríkjunum, í næsta mánuði, en efasemdamenn keppast nú við að finna hvort fótur sé  fyrir fullyrðingum Ballarin, sem og að átta sig á því hvers vegna hún hyggst hefja flug í byrjun vetrar.

Í viðtalinu við WP segist Ballarin vilja hefja starfsemina varlega. „Ég held að þetta sé nákvæmlega rétti tíminn til að gera þetta.“

Ballarin hefur haft augastað á WOW air allt frá því í desember á síðasta ári, þegar hún segist hafa sett sig í samband við Skúla Mogensen. „Þetta er nýtt fyrir alla þá sem eru að lesa og tala um þetta. En við höfum verið að í fjóra ársfjórðunga, daglega, sjö daga vikunnar,“ segir Ballarin.

Ekki erfitt að fá flugrekstrarleyfi

Eins og fram hefur komið í fréttum mbl.is hefur nýtt félag hvorki fengið íslenskt né bandarískt flugrekstrarleyfi, þrátt fyrir fullyrðingar talsmanna þess efnis, en að sögn sérfræðinga WP ætti ekki að vera erfitt fyrir félagið að fá leyfið þegar sótt verður um það í Bandaríkjunum. Að sögn Ballarin vinnur starfsfólk hennar hörðum höndum að því að finna bestu leiðina til þess að fá leyfið.

Sérfræðingar segja þó erfitt að sjá hvernig nýtt flugfélag eigi eftir að takast það sem því gamla tókst ekki, hvað þá með þeirri bættu þjónustu sem Ballarin hefur lofað.

„Endurbygging félags er auðveldari en að byrja frá byrjun. Það verða alltaf efasemdamenn, en í lok dags verð ég stoltust allra þeirra sem verða í röð við hliðið og sjá fjólubláu flugvélina fyrir utan,“ segir Ballarin.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK