Snjallhnappur á markað

Snjallhnappurinn gefur stöðu á viðkomandi, fylgist með og lætur vita …
Snjallhnappurinn gefur stöðu á viðkomandi, fylgist með og lætur vita ef eitthvað bregður út af daglegri rútínu viðkomandi.

Öryggismiðstöðin hefur sett á markað Snjallhnapp fyrir eldri borgara, fatlað fólk og aðra þá sem þurfa aðstæðna sinna vegna að njóta aukins öryggis heima við og geta kallað eftir tafarlausri aðstoð að því er fram kemur í tilkynningu.

Grunnvirkni Snjallhnappsins byggist áfram á öryggishnappi sem fólk ber á sér. Því til viðbótar er nú hægt að fá nokkra skynjara setta upp á heimili þess sem er með kerfið, sem greina hreyfingu og gefa færi á að senda boð ef eitthvað bregður út af vana á heimilinu. Aðstandendur fá app í snjalltækin sín og með „snjallreglum“ í appinu er hægt að fá mikilvægar upplýsingar og tilkynningar um velferð og heilsu þess sem ber hnappinn.

Veitir meira öryggi

„Snjallhnappurinn er mjög öflug og snjöll tæknilausn fyrir þá sem vilja njóta aukins öryggis heima við. Það er staðreynd að sá hópur sem við skilgreinum sem eldri borgara er að stækka og þeir vilja flestir búa sem allra lengst heima. Það er því mikilvægt að bjóða þessum hópi nútímalegar lausnir sem létta þeim lífið og auka öryggi, á sama tíma og aðstandendur fá tækifæri til að fylgjast betur með og bregðast við ef eitthvað bjátar á. Snjallhnappurinn veitir mun meira öryggi en áður hefur þekkst,“ segir Ómar Örn Jónsson, markaðsstjóri Öryggismiðstöðvarinnar.

Snjallhnappurinn gefur stöðu á viðkomandi, fylgist með og lætur vita ef eitthvað bregður út af daglegri rútínu viðkomandi. Með hefðbundnum hreyfiskynjurum og snjallreglunum er hægt að fylgjast með hvort eitthvað ber út af vana í virkni og hreyfingu á heimilinu.

Fólk hefur val

„Sem dæmi um snjallreglu í kerfinu má nefna að kerfið getur látið vita af því að viðkomandi sé kominn á ról að morgni dags og sé á hreyfingu um heimilið og ef sá sem notar kerfið skilar sér ekki inn í eldhús í hádegismat eða er óvanalega lengi á salerninu getur kerfið sent aðstandendum tilkynningu. Fólk hefur að sjálfsögðu val um hvernig það stillir upp kerfinu, hversu miklu af upplýsingum það vill deila með aðstandendum, eða hvort það kjósi yfirhöfuð að nýta þann möguleika. Þetta er einfaldlega mjög góður og öflugur valkostur fyrir fjölskyldur sem vilja standa betur saman að velferð þess sem notar hnappinn. Snjallari öryggishnappur getur jafnframt greint hröðun í falli og sent sjálfvirkt boð um líklegt fall jafnvel án þess að þrýst hafi verið á hnappinn sjálfan,“ segir Ómar.

„Snjallhnappurinn getur verið dýrmætt öryggistæki fyrir eldri borgara og veitt þeim aukið öryggi og aðstandendum hugarró. Snjallhnappur kemur sem viðbót við hefðbundna öryggishnappa sem hafa verið afar vinsælir um árabil.

Munurinn er sá að það þarf ávallt að þrýsta á hefðbundinn öryggishnapp ef aðstoðar er þörf.  Með snjallhnappi er hins vegar hægt að fylgjast mun betur með og kerfið lætur vita ef eitthvað bregður út af vana. Þannig er ekki einungis hægt að bregðast við neyð heldur einnig fylgjast með og sjá ýmiss konar mikilvægar vísbendingar um hrakandi heilsu og aðstæður sem þarf að bregðast við. Snjallhnappurinn er tengdur stjórnstöð Öryggismiðstöðvarinnar sem bregst strax við öllum neyðarboðum frá kerfinu.

Öryggismiðstöðin hefur markað þá stefnu að bjóða viðskiptavinum sínum snjallari lausnir. Við vorum fyrst á markað með Snjallöryggi fyrir heimili og nú bjóðum við fyrst fyrirtækja upp á snjallari öryggishnappa. Þeir sem eru að nota hefðbundna öryggishnappa geta sett sig í samband við okkur og kynnt sér möguleika þess að uppfæra hnappinn sinn í snjallari lausn,“ segir Ómar enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK