WOW 2 í loftið um miðjan október

Upphaflega átti að fljúga fyrsta WOW 2 flugið frá Dulles-flugvelli …
Upphaflega átti að fljúga fyrsta WOW 2 flugið frá Dulles-flugvelli til Íslands í byrjun október. mbl.is/​Hari
WOW 2 mun hefja sig til flugs um miðjan október nk. Ferlið gengur hægar en vonast var til, meðal annars vegna tafa á afhendingu léns og fleiri hluta.
Stíf vinna við endurreisn WOW air stendur nú yfir beggja vegna Atlantsála, en meðal þess sem unnið er að þessa dagana er, samkvæmt heimildum ViðskiptaMoggans, bókunarvél og vefur nýja félagsins.

Eins og áður hefur komið fram er það athafnakonan Michele Roosevelt Edwards, stjórnarformaður US Aerospace Associates LLC, sem stendur að endurreisn WOW, en hún hefur fest kaup á flugtengdum eignum úr þrotabúi flugfélagsins.

Heimildir ViðskiptaMoggans herma að stefnt sé að því að fljúga jómfrúarflug hins endurreista félags, sem Edwards hefur kallað WOW 2, í síðasta lagi um miðjan næsta mánuð. Upphaflega átti að fljúga fyrsta flugið frá Dulles-flugvelli í Washington hingað til Íslands í byrjun október, en það mun ekki ganga eftir.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu fyrr í þessum mánuði greiddi Edwards 50 milljónir króna fyrir eignirnar en þar á meðal eru fjólubláu búningarnir, margvíslegar rekstrarvörur, varahlutir, bókunartækni og handbækur. Þó gengur enn, samkvæmt heimildum ViðskiptaMoggans, treglega að fá eignirnar afhentar í nothæfu ástandi.

Eitt af því sem heimildarmenn blaðsins herma að hafi ekki fengist afhent, eru lén félagsins, wow.is og wowair.com, en talið er að það muni þó ekki standa í vegi fyrir því að hægt verði að hefja sölu á miðum.

Flugrekstrarþættir unnir vestan hafs

Heimildir ViðskiptaMoggans herma að undirbúningur gangi vel, en þó hægar en vonast var til. Vinna við fyrrnefnda bókunarvél og vef er unnin mest hér á landi en í Bandaríkjunum hefur verið unnið að öllum „flugrekstrarlegum þáttum“ eins og einn heimildarmaður orðaði það. Félagið sem heldur á flugrekstrarleyfi WOW 2 er bandarískt og er í eigu Edwards og hennar viðskiptafélaga. Sótt verður um flugrekstrarleyfi hér á Íslandi um leið og starfsemin er komin í fullan gang.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK