Hundrað sagt upp hjá Arion banka

Stjórn Arion banka samþykkti á fundi sínum í morgun nýtt skipulag bankans sem tekur gildi í dag. Starfsfólki bankans mun við breytingarnar fækka um 12% eða um eitt hundrað manns. Þar af starfa um 80% í höfuðstöðvum bankans og um 20% í útibúum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum. Vinnumálastofnun hefur verið greint frá uppsögnunum.

Greint var frá því á vef Mannlífs um helgina að vænta mætti fregna af skipulagsbreytingum í vikunni og varð starfsfólk bankans eðli máls samkvæmt órólegt vegna tíðindanna. Samkvæmt heimildum mbl.is fór svo að kvisast út um bankann í gær að öll fundaherbergi væru bókuð vegna einkafunda fram til hádegis í dag.

Sviðum bankans fækkað um tvö

Skipulagsbreytingarnar eru sagðar liður bankans að settum markmiðum um 50% kostnaðarhlutfall og arðsemi eiginfjár umfram 10%.

Verður sviðum bankans fækkað um tvö og ýmis verkefni færð til innan bankans, en tekjusvið bankans verða þrjú: viðskiptabankasvið, fyrirtækja- og fjárfestingarbankasvið og markaðir og stoðsvið verða þrjú: fjármálasvið, upplýsingatæknisvið og áhættustýring.

„Markmið breytinganna er að styrkja samkeppnishæfni bankans og auka arðsemi eiginfjár. Grunnstefna bankans er óbreytt og mun Arion banki áfram veita alhliða fjármálaþjónustu til einstaklinga, fyrirtækja og fjárfesta og vera í fararbroddi um stafræna bankaþjónustu. Meginbreytingin felst í að starfsemi fjárfestingabankasviðs færist á tvö ný svið, annars vegar markaði og hins vegar fyrirtækja- og fjárfestingabankasvið.“ segir í tilkynningu.

Breytingar í umhverfi fjármálafyrirtækja íþyngjandi

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, segir umhverfi fjármálafyrirtækja hafa breyst mikið á undanförnum árum. „Íþyngjandi breytingar á regluverki og sköttum á síðastliðnum áratug hafa leitt af sér mikinn viðbótarkostnað. Það er staðreynd að eiginfjárkröfur og skattar á banka hér á landi eru langt umfram það sem tíðkast í löndunum í kringum okkur og skerða samkeppnisstöðu þeirra,“ segir Benedikt og nefnir auk þess að samkeppni á fjármálamarkaði sé að aukast til muna.

„Með þeim skipulagsbreytingum sem við kynnum í dag erum við að bregðast við aðstæðum til að tryggja að bankinn þjóni sínum viðskiptavinum vel á sama tíma og hann skilar hluthöfum arði. Við byggjum á þeim mikla árangri sem hefur náðst á undanförnum árum á sviði stafrænnar þjónustu og sjálfvirknivæðingar og ætlum okkur áframhaldandi forystuhlutverk í framsækinni fjármálaþjónustu.“

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK