Reiknar ekki með öllum hópnum á atvinnuleysisbætur

Langflestum þeirra sem misst hafa vinnuna í dag hefur verið ...
Langflestum þeirra sem misst hafa vinnuna í dag hefur verið gert að hætta strax og mun vera þungt hljóð í starfsfólki bankans. mbl.is/Eggert

Arion banki hyggst greiða öllum þeim starfsmönnum sem missa vinnuna í dag einum mánuði lengri uppsagnarfrest en bankanum ber lögum samkvæmt. „Þeir eru að reyna að mýkja þetta eitthvað greinilega, bæta fólkinu þetta eins og þeir geta,“ segir Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, í samtali við mbl.is, en upplýsingar um þessa tilhögun fylgdu tilkynningu bankans til stofnunarinnar í morgun.

Langflestum þeirra sem misst hafa vinnuna í dag hefur verið gert að hætta strax og mun vera þungt hljóð í starfsfólki bankans. „Þetta verður erfiður dagur fyrir okkur öll, ekki síst þá sem starfa í höfuð­stöðvunum þar sem breytingarnar verða mestar,“ sagði Bene­dikt Gísla­son banka­stjóri í tölvupósti til starfsmanna í morgun. Þar störfuðu um 80 af þeim um 100 starfsmönnum sem sagt hefur verið upp.

Að sögn Haralds Guðna Eiðssonar, forstöðumanns samskiptasviðs bankans, er kynjaskipting þess hóp sem missir vinnuna í dag nokkuð jöfn, en í bankanum eru starfsmenn um 65% konur og 35% karlar. Meðalaldur starfsmanna bankans eru um 42 ár, en meðalaldur þeirra starfsmanna sem sagt er upp í dag er svipaður eða ögn hærri, segir Haraldur. Unnur hafði ekki fengið upplýsingar frá bankanum hvað þetta varðaði, en sagði Vinnumálastofnun ætla að grennslast nánar fyrir um samsetningu hópsins í dag.

„Við erum á samdráttarskeiði, þannig að það er þyngra fyrir ...
„Við erum á samdráttarskeiði, þannig að það er þyngra fyrir fólk að finna vinnu. Það er ekki kreppa en það hefur fjölgað fólki hérna á atvinnuleysisskrá síðasta árið, alveg um eitt prósent,“ segir Unnur. mbl.is/Hari

Starfsfólk með flotta menntun og reynslu

„Það má búast við því að stór partur af þessu fólki sé mjög vel menntað á viðskiptasviðinu og þetta hækkar hlutfall þeirra sem eru með háskólamenntun, að því sögðu að það fari allir að sækja um atvinnuleysisbætur, sem við vonum auðvitað að verði ekki. Það er margt fólk með flotta reynslu og flotta menntun, sem eykur möguleika þess á vinnumarkaði,“ segir Unnur, sem efast ekki um að margir þeirra starfsmanna sem í dag segja skilið við Arion banka geti fundið vinnu við hæfi áður en uppsagnarfrestur þeirra rennur út, þrátt fyrir að nú sé samdráttur á vinnumarkaði.

„Við erum á samdráttarskeiði, þannig að það er þyngra fyrir fólk að finna vinnu. Það er ekki kreppa en það hefur fjölgað fólki hérna á atvinnuleysisskrá síðasta árið, alveg um eitt prósent,“ segir Unnur.

Formaður trúnaðarmannaráðs upplýstur, en um leið orðinn innherji

Friðbert Traustason formaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, hefur lýst undrun sinni á því að stéttarfélagið hafi ekki fengið að vita neitt um fyrirhugaðar uppsagnir fyrr en tilkynning kom frá bankanum í morgun. Hann sagði í samtali við mbl.is að bankinn hefði borið það fyrir sig að ekkert væri hægt að gefa út um fyrirhugaðar uppsagnir sökum þess að bankinn væri skráður á hlutabréfamarkað.

Í lögum um hópuppsagnir er kveðið á um að atvinnurekandi skuli upplýsa trúnaðarmann stéttarfélags innan fyrirtækisins um áformin. Haraldur Guðni segir að bankinn hafi gert það eftir bestu getu og upplýst formann trúnaðarmannaráðs bankans um áformin. Er trúnaðarmaðurinn hafði verið upplýstur var hann þó einnig kominn tímabundið á innherjalista hjá bankanum – og mátti sem slíkur ekki tjá sig um áformin, samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti.

„Okkur er ekki skylt að upplýsa SSF, þó að við hefðum undir venjulegum kringumstæðum viljað gera það, en við töldum okkur ekki heimilt að gera það fyrr en breytingarnar voru opinberaðar vegna ákvæða um innherjamál,“ segir Haraldur.

Neitaði því einungis að uppsagnir yrðu á mánudag

Friðbert sagði einnig að bankinn hefði borið til baka fréttaflutning Mannlífs frá því á sunnudag, en því neitar Haraldur að hann hafi gert, nema að takmörkuðu leyti. Í samtali við Vísi á mánudag sagði Haraldur að ekki stæði til að segja fólki upp þann daginn, en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um mögulegar uppsagnir í bankanum á næstunni.

„Ég hafnaði því að það myndi eiga sér stað hópuppsögn í bankanum á mánudeginum. Spurður um framhaldið vísa ég alltaf til stefnumótunarvinnu og að það yrði tilkynnt um hana þegar niðurstaða lægi fyrir. Bankinn neitaði aldrei að það myndi eitthvað gerast síðar í vikunni,“ segir Haraldur Guðni.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK