Vonast til að ráða flesta flugmenn aftur í vor

Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair Group.
Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair Group. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er auðvitað mjög erfitt að segja upp starfsfólki, flugmönnum og öðrum, og þeir sem verða fyrir þessu taka því að sjálfsögðu ekki vel en við erum að glíma við miklar árstíðasveiflur í okkar rekstri og við þurfum að bregðast við því,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, í samtali við mbl.is.

Framlenging á kjarasamningi Icelandair við Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) var undirritaður í gær og gildir hann nú til 30. september 2020. Samhliða undirritun framlengingarinnar var dregin til baka ráðstöfun að segja upp 111 flugmönnum og bjóða þeim 50% starf frá 1. desember 2019 til 1. apríl 2020 en þess í stað var 87 flugmönnum sagt upp störfum frá 1. október.

Áhrif kyrrsetningar MAX-flotans

„Þetta snýst um flotamál félagsins núna í vetur og fram á næsta vor. MAX-flugvélarnar eru ennþá kyrrsettar þannig að flotinn er minni, áhafnarþörf minni og þjálfunarþörf minni,“ bætir Bogi við.

Um er að ræða nokkuð stóran hluta af starfandi flugmönnum hjá Icelandair en eftir að uppsagnirnar taka gildi munu 460 flugmenn starfa hjá flugfélaginu að sögn Boga. Er von­ast til þess að hægt verði að ráða þá flesta aft­ur næsta vor.

Icelandair byggir áætlanir sínar á því að MAX-floti flugfélagins byrji að fljúga í janúar en það er ekki fast í hendi og þær áætlanir gætu breyst.

Áætlanir gera ráð fyrir að MAX-vélarnar hefji flug í janúar

„Okkar plön eru þannig uppsett í dag að þær fari að fljúga í okkar leiðarkerfi í janúar en við munum að sjálfsögðu breyta því ef að það koma einhverjar upplýsingar sem benda til þess að það komi ekki til með að ganga upp,“ segir Bogi.

Spurður hvort að þær áætlanir byggist á nýjum upplýsingum frá Boeing eða öðrum aðilum neitar hann því:

„Nei það eru engar nýjar upplýsingar. Það er nokkuð síðan við stilltum okkar áætlanir af og miðuðum við janúar en við erum ekki með neinar haldbærar upplýsingar sem við getum byggt á. Engin flugmálayfirvöld, Boeing eða neinn annar aðili hefur sagt að á þeim tímapunkti muni vélarnar fljúga. Við þurfum að taka þær upplýsingar sem eru fyrirliggjandi og búa til okkar eigin plön.“

Fjárhæð bóta frá Boeing trúnaðarmál

Spurður um upphæð bóta í bráðabirgðasamkomulagi sem Icelandair hefur gert við Boeing vegna kyrrsetningar MAX-flotans segir Bogi þær upplýsingar vera trúnaðarmál milli samningsaðila. Hann segir samkomulagið þó ekki bundið neinum fyrirvörum og því sé þessi ótilgreinda fjárhæð bóta í hendi þrátt fyrir að Icelandair muni standa fast á því að fá allt tjón sitt bætt.

„Þetta var bráðabirgðasamkomulag og það er frágengið en viðræður halda áfram. Það er búið að klára afmarkaðan hluta af þessu bótamáli en við höldum áfram, það er okkar markmið að fá allt tjón bætt,“ segir Bogi að lokum.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK