Rammgerðar rafskútur til leigu í Reykjavík

Ragnar Þór Valgeirsson, Ægir Þorsteinsson og Eiríkur Nilsson, stofnendur Hopps …
Ragnar Þór Valgeirsson, Ægir Þorsteinsson og Eiríkur Nilsson, stofnendur Hopps og eigendur hugbúnaðarfyrirtækisins Aranja. mbl.is/Eggert

Rafskútur frá fyrirtækinu Hopp eru komnar á götur Reykjavíkurborgar, aðgengilegar öllum sem þær vilja nota. Rafskúturnar, eða rafhlaupahjólin eins og slík tæki eru einnig kölluð, eru leigðar í gegnum farsímaforrit og er startgjaldið 100 krónur og svo 30 krónur fyrir hverja mínútu notkunar eftir það. Hægt er skilja hjólin eftir hvar sem er innan þjónustusvæðisins, þegar notkun lýkur.

„Í þessum fyrsta fasa erum við með sextíu hjól og þau eru dreifð frá Granda, í gegnum 101, að Háskóla Íslands og upp að Kringlumýrarbraut og Miklubraut,“ segir Ægir Þorsteinsson framkvæmdastjóri Hopp í samtali við mbl.is. Hann segir að ákveðið hafi verið að byrja á þessu þjónustusvæði með þessi sextíu hjól til þess að tryggja að aldrei væri of langt í næsta hjól.

Þjónustusvæði Hopp er innan Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar/Hringbrautar og út á …
Þjónustusvæði Hopp er innan Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar/Hringbrautar og út á Granda. Hér má sjá staðsetningu lausra hjóla.

„Þetta hentar rosalega vel með öðrum samgönguleiðum, eins og ef þú ert að taka strætó á þetta svæði, þá er þetta til þess að brúa bilið þar, kannski síðasta kílómetrann. Ég rek hugbúnaðarfyrirtæki líka og við erum í Nóatúni og erum mikið að fara á fundi og við höfum verið að nýta okkur rafskútur í það. Það hentar svo vel að þurfa ekki að vera á bílnum, hafa þetta umhverfisvænna og komast á skemmtilegri hátt á milli staða,“ segir Ægir.

Rafskútur sem þessar hafa orðið sífellt meira áberandi í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu síðustu misseri, en Hopp er fyrsta fyrirtækið sem setur flota slíkra tækja í útleigu til almennings hérlendis. Slíkar leigur hafa notið mikilla vinsælda í borgum erlendis og hafa fréttir verið sagðar af því að erlend fyrirtæki horfi til þess að bjóða þjónustu sína hér.

Hopp er hinsvegar fyrst inn á þennan markað, með alíslenska lausn, sem upphaflega var unnin í samstarfi við nemendur HR. „Við erum bara íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki og tókum okkur til og skrifuðum alla lausnina frá grunni. Þannig að þetta er algjörlega íslensk vara og engin þjónustugjöld sem fara til útlanda við notkun hennar. Við vorum með lokaverkefni í HR í vor við að búa til þennan „platform“ og síðan hefur hugbúnaðarfyrirtækið Aranja tekið þetta lengra og klárað allt sem þarf að klára,“ segir Ægir.

Hann segir að Aranja sérhæfi sig í því að gera forrit fyrir snjallsíma og að Hopp-verkefnið, sem nú er komið í loftið, sé einfaldlega hálfgert ástríðuverkefni fyrir þá sem að því standa, en verkefnið er unnið í samstarfi við fjarskiptafyrirtækið Nova og var formlega hleypt af stokkunum fyrir framan höfuðstöðvar fyrirtækisins í Lágmúla í morgun.

Ragnar Þór, Ægir, Eiríkur, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Margrét …
Ragnar Þór, Ægir, Eiríkur, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Margrét Tryggvadóttir forstjóri Nova í Lágmúla í morgun. Ljósmynd/Aðsend

Notendur þurfa að leggja hjólunum vel

Sem áður segir er hægt að nota hjólin og skilja þau eftir hvar sem er innan þjónustusvæðisins. En það skiptir þó máli hvernig þeim er lagt. „Við hvetjum fólk til þess að leggja þeim eins og það sé að leggja reiðhjóli. Þegar þú klárar ferðina muntu þurfa að taka mynd af því hvernig þú lagðir og þá segjum við fólki hvað það ætti að hugsa um. Við viljum ekki að þetta sé fyrir gangandi vegfarendum eða að hindra einhverja umferð, þetta á að flæða vel með borginni,“ segir Ægir.

Ef hjólin eru skilin eftir utan þjónustusvæðisins, þá leggst 3.000 króna þjónustugjald ofan á leiguna, en það er þá gjald fyrir að láta starfsmenn Hopp sækja hjólið og koma því aftur inn á þjónustusvæðið. Til stendur að stækka þjónustusvæðið er næsta sending af hjólum kemur og segir Ægir að þá sé meðal annars horft til þess að svæðið nái út í Nauthólsvík, þannig að nemendur Háskólans í Reykjavík geti nýtt sér hjólin.

Sett var upp lítil braut við Háskóla Íslands í dag …
Sett var upp lítil braut við Háskóla Íslands í dag þar sem fólk gat fengið að prófa hjólin. mbl.is/Eggert

„Það er mjög leiðinlegt að geta ekki hjálpað þeim með þeirra vandamál, en við bara fengum ekki nægilega mörg hjól,“ segir Ægir og bætir við að næsta sending hjóla komi að líkindum í nóvember, þó það liggi ekki alveg ljóst fyrir.

Þá má ef til vill sjá fyrir sér að HR-ingar geti notað hjólin til þess að komast frá skólanum og til móts við strætisvagna hjá BSÍ eða annars staðar á örfáum mínútum, en umferðarteppan sem myndast á Flugvallarvegi síðdegis hefur verið til ama til lengri tíma og meðal annars leitt til þess að strætóleið númer 5, sem áður þjónaði HR, hefur verið skorin í sundur.

Hjólin þoli íslenskar aðstæður

Spurður út í það hvort hjólin sem Hopp býður upp á þoli íslenskar aðstæður, segir Ægir að svo sé. „Þetta er svokölluð önnur kynslóð af svona tækjum. Við hefðum getað byrjað í byrjun sumars með fyrstu kynslóðar-hjól, en við vildum koma bara beint með alvörugæði, sem þola íslenskar aðstæður. Helsta markmið okkar er bjóða upp á umhverfisvænan fararmáta og okkur þótti ekki umhverfisvænt að kaupa fullt af fyrstu kynslóðar hjólum sem væru bara ónýt eftir nokkra mánuði. Þetta eru tæki sem eru hönnuð í flota, þetta er hannað til þess að skipta út varahlutunum og með fullt af öryggisfítusum sem eru ekki á fyrstu kynslóðar tækjum,“ segir Ægir.

Ægir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Hopp, við Háskóla Íslands þar sem fólki …
Ægir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Hopp, við Háskóla Íslands þar sem fólki gafst kostur á að prófa rafskúturnar í hádeginu í dag. mbl.is/Eggert

Hann segir hjólin til dæmis vera með ljós á hliðunum, sem geri fólk mjög sýnilegt í myrkri og einnig afturhjóladrifin, sem skipti miklu. „Flest hjól sem eru seld út úr búð á Íslandi eru framhjóladrifin, þannig að ef þú ert að fara yfir smá hindrun og framhjólið skoppar upp, þá missir þú gripið,“ segir Ægir og bætir við að jafnvægi sé betra á afturhjóladrifnum hjólum. Hann segir hjólin stór og nokkuð þung og þau eru nógu breið til þess að fólk geti staðið á þeim með báða fætur samhliða. Einnig eru dekkin stór og loftlaus, þannig að það þarf ekki að pumpa í þau.

Hleðsla hjólanna endist 50 kílómetra, sem Ægir segir að sé með því besta sem gerist. Þau komast á 25 kílómetra hraða, en eru þó með öflugri mótor, til þess að auðvelda fólki að halda hraða upp brekkur.

Býst við samkeppni

Ægir segir aðspurður að hann reikni með því að Hopp fái brátt samkeppnisaðila í útleigu rafhlaupahjóla, en greint hefur verið frá því í fjölmiðlum að erlend stórfyrirtæki í þessum bransa horfi til þess að bjóða upp á þjónustu sína í Reykjavík.

Hann segist sjá tækifæri í því að komast að samkomulagi við aðra rekstraraðila samgöngumáta um samgönguáskriftir. „Við vildum helst að þú gætir fengið þér eina samgönguáskrift að strætó, rafskútum og hjólum,“ segir Ægir og bætir við að það sé gaman að sjá borgina breytast hvað varðar fjölbreytni í samgöngum.

Margir Íslendingar hafa eflaust prófað svona rafhlaupahjól á ferðum sínum erlendis og segist Ægir reikna með því að ferðamenn í Reykjavík muni nýta sér hjólin, þar sem þau gefi fólki tækifæri til þess að upplifa borgina á nýjan hátt. „Ég hef sjálfur gert það erlendis og ég er mjög spenntur að byrja að bjóða ferðamönnum upp á þetta,“ segir Ægir, en farsímaforritið er á íslensku og ensku sem stendur og gæti brátt orðið aðgengilegt á fleiri erlendum tungumálum.

„Þetta er bara alveg nýtt á Íslandi og það verður gaman að sjá hvernig þörfin fyrir þetta er og hvernig fólk tekur þessu,“ segir Ægir. Á samfélagsmiðlum hafa viðbrögðin verið góð, eins og sjá má hér að neðan:





mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK