Gistinóttum á hótelum fjölgaði um 2% í ágúst

Byggingakranar við nýja Mariott hótelið við hliðina á Hörpu. Framboð ...
Byggingakranar við nýja Mariott hótelið við hliðina á Hörpu. Framboð hótelherbergja hefur aukist um 138% síðan í ágúst árið 2009. mbl.is/Hari

Heildarfjöldi greiddra gistinátta í ágúst dróst saman um 3% miðað við ágústmánuð í fyrra og kom sú fækkun helst fram í gistinóttum sem miðlað var um Airbnb og svipaðar síður, þar sem fækkunin var 17%. Gistinóttum á hótelum fjölgaði aftur á móti um 2%.

Ef hótel og gistiheimili eru tekin saman fækkaði gistinóttum aftur á móti um 0,6%. Gistinóttum á öðrum tegundum gististaða, þ.e. tjaldsvæðum, farfuglaheimilum, íbúðagistingum o.fl. fjölgaði um eitt prósent.

Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.

Þar kemur einnig fram að greiddar gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum hafi verið um 1.518.000 í ágúst síðastliðnum en um 1.565.000 í sama mánuði í fyrra. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru 711.800, þar af 513.400 á hótelum og 198.400 á gistiheimilum.

Gistinætur í íbúðagistingu, farfuglaheimilum, tjaldsvæðum o.þ.h. voru um 566.000 og um 240.000 í gegnum vefsíður á borð við Airbnb.

Greiddar gistinætur ferðamanna á árunum 2017 til 2019.
Greiddar gistinætur ferðamanna á árunum 2017 til 2019. Graf/Hagstofa Íslands

Gistinóttum hótela fjölgaði um tvö prósent

Gistinætur á hótelum í ágúst síðastliðnum voru 513.400, sem er 2% fjölgun frá sama mánuði árið áður. Fjöldi gistinátta á hótelum á höfuðborgarsvæðinu stóð í stað frá ágúst í fyrra. Hótelgistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum nema á Vestfjörðum og Vesturlandi. Mesta hlutfallsleg fjölgun var á Suðurnesjum og var hún 19% Um helmingur allra hótelgistinátta var á höfuðborgarsvæðinu, 250.800 talsins.

Á tólf mánaða tímabili, frá september 2018 til ágúst 2019, var heildarfjöldi gistinátta á hótelum um 4.413.000, sem er 1% aukning miðað við sama tímabil árið áður.

Framboð hótelherbergja aukist um 77% frá 2014

Frá ágúst 2014 hefur framboð hótelherbergja á landinu farið úr 6.200 herbergjum upp í 11.000, sem er aukning um 77%. Í ágúst 2009 voru herbergin 4.600 og hafa því aukist um 138% síðan þá.

Herbergjanýting í ágúst 2019 var 82,8%, sem er minnkun um 2,1 prósentustig frá ágúst 2018 þegar hún var 84,9%. Á sama tíma hefur framboð gistirýmis aukist um 5,4% mælt í fjölda herbergja. Nýtingin í ágúst var best á Suðurnesjum, eða 89,6%.

Framboð og nýting hótelherbergja 2015 til 2019.
Framboð og nýting hótelherbergja 2015 til 2019. Graf/Hagstofa Íslands
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK