„Íslenska hagkerfið virðist vera að lenda ágætlega“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Verðbólguvæntingar eru bjartari nú en í síðasta mánuði og skýrist það meðal annars af því að nú ber minna á innlendum kostnaðarþrýstingi en áður hafði verið gert ráð fyrir og þá er gengið nokkuð hátt. Viðspyrna hagkerfisins virðist einnig meiri en gert hafði verið ráð fyrir, þrátt fyrir blikur á lofti erlendis. „Íslenska hagkerfið virðist vera að lenda ágætlega.“ Þetta kom fram í máli Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra á kynningarfundi vegna ákvörðunar peningastefnunefndar í morgun að lækka stýrivexti bankans um 0,25 prósentustig niður í 3,25%.

Ásgeir sagði að undanfarið þegar hagvöxtur hefði farið lækkandi hafi innlend eftirspurn í auknum mæli beinst að innlendum vörum. Á sama tíma hafi eftirspurn eftir varanlegum neysluvörum (svo sem bílum og stærri tækjum) minnkað, en Ísland framleiðir mjög lítið af varanlegum neysluvörum. Sagði Ásgeir að þetta kæmi því niður á innflutningi. Hingað til hafi aðlögun í hagkerfinu oft farið í gegnum gengið, en núna væri aðlögunin að fara í gegn án þess að gengið hafi fallið neitt svakalega mikið. „Það er meiri aðlögun í kerfinu. Við sjáum meiri aðlögun í utanríkisviðskiptum sem er mjög jákvætt,“ sagði hann.

„Við getum að einhverju leyti farið að verða eins og venjuleg þjóð“

Ásgeir kom einnig inn á þróun verðbólguvæntinga og sagði hann þá þróun bera þess merki að meiri trú væri á peningastefnunni en áður. „Þróun verðbólguvæntinga er mjög jákvæð. Á síðasta vetri sáum við gengið lækka um 10-20% og sáum líka hækkanir á launum sem leiddi til einhverrar hækkunar á verðbólgu sem er nú að ganga niður. En verðbólguvæntingar hækkuðu fyrst og eru svo að ganga niður. Það finnst okkur benda til þess að peningastefnan hafi aðeins meiri trúverðugleika heldur en hún hafi haft áður og við getum að einhverju leyti farið að verða eins og venjuleg þjóð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK