Lægri vextir verðlaun fyrir skynsamlega kjarasamninga

Rann­veig Sig­urðardótt­ir aðstoðarseðlabanka­stjóri og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á kynningarfundi bankans ...
Rann­veig Sig­urðardótt­ir aðstoðarseðlabanka­stjóri og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á kynningarfundi bankans í morgun. Skjáskot

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir lækkandi vexti vera verðlaun sem fylgi því að gera skynsamlega kjarasamninga. Þetta kom fram á kynningarfundi vegna ákvörðunar peningastefnunefndar Seðlabankans um að lækka stýrivexti í dag úr 3,5% niður í 3,25%.

Á fundinum var Ásgeir meðal annars spurður út í framtíðarhorfur vaxta og langtímavexti, en Ásgeir talaði á sínum tíma meðal annars fyrir því að Seðlabankinn birti framvirkan vaxtaferil. Sagði Ásgeir að miklar breytingar hefðu átt sér stað varðandi langtímavexti hér á landi síðasta áratuginn. Sagði hann Ísland hafa breyst „úr því að vera með krónískan viðskiptahalla frá 1945 til 2009 – sífellt að flytja inn fjármagn og með neikvæða stöðu við útland – í  að vera land sem er núna að flytja út fjármagn og með stöðugan viðskiptaafgang og land sem er með jákvæða stöðu við útlönd. Leiðir til þess að langtímavextir eru að lækka.“

Verðlaunin eru lægri vextir til lengri og skemmri tíma

Sagði hann að lækkandi verðbólguvæntingar lækki vaxtastigið til skemmri og lengri tíma. „Vorum með verðbólguvæntingar sem voru langt fyrir ofan verðbólgumarkmiðið. Þetta hefur nú breyst. Leiðir til þess að við getum verið með minni vaxtamun við útlönd og lægri vexti á Íslandi ef við erum með lægri verðbólguvæntingar,“ sagði Ásgeir.

Nefndi hann næst að lægri vextir væru árangur meðal annars af skynsamlegum kjarasamningum. „Verðlaunin fyrir það að við getum fylgt verðbólgumarkmiði eru lægri vextir til lengri og skemmri tíma. Verðlaunin fyrir það að gera skynsamlega kjarasamninga eru lægri vextir og vonandi erum við að fara að sjá þau verðlaun koma fram.“

Ekki alltaf of jákvætt að lækka vexti

Rannveig Sigurðardóttir aðstoðarseðlabankastjóri sagði að þótt flestir vildu almennt lækka vexti væri það ekki alltaf of jákvætt að lækka þá. Nefndi hún að raunvextir væru orðnir mjög lágir hér á landi, eða í kringum 0,5%. Sagði hún bankann ekki vilja fara með vextina mikið nær núllinu en þeir væru núna. Þá benti staðan á hagkerfinu ekki til þess að fara þyrfti með þá lengra niður.

Sagði hún jákvætt hversu vel fjármálastefnan og peningastefnan væru að dansa saman. Þannig þyrfti ekki að fara með vextina eins lágt þegar fjármálastefna ríkisstjórnarinnar væri að dansa með Seðlabankanum.

„Sagt í mínu fyrra lífi“

Þegar Ásgeir svaraði spurningunni um hvort hann vildi sjá bankann birta framvirka vaxtaferla eins og hann hafði áður talað fyrir sagði hann afstöðu sína í þeim málum aðeins hafa breyst. „Varðandi framvirka vaxtamiðlun. Sagt í mínu fyrra lífi. Var þá formaður nefndar sem lagði þetta til. Sem seðlabankastjóri get ég ekki beinlínis tjáð mig um þetta núna.“ Sagði hann mismunandi hvað seðlabankar gerðu í þessu sambandi, en að þetta yrði líklega rætt innan bankans.

Afsakið má ekki sletta“

Þetta var ekki eina skiptið á fundinum þar sem Ásgeir, sem tók nýlega við starfi seðlabankastjóra, var að finna sig í nýja embættinu. Þannig bað hann viðstadda í eitt skiptið afsökunar á enskuslettu og sagðist ekki mega gera slíkt. Var hann þar að ræða vaxtaákvörðunina í dag og yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar: „Eins og kemur fram í þessari yfirlýsingu er þetta að einhverju leyti datadrifið. Afsakið má ekki sletta,“ sagði hann og leiðrétti sig: „Gögnin ráða því sem mun gerast,“ og vakti með þessu smá kátínu í salnum.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK