TM kaupir Lykil og stefnir á fjármögnunarmarkað

Tryggingamiðstöðin (TM) hefur undirritað kaupsamning við Klakka ehf. um kaup á Lykli fjármögnun hf., en kaupverðið er 9,25 milljarðar auk þess sem TM mun greiða Klakka hagnað Lykils á þessu ári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá TM til Kauphallarinnar. Til framtíðar ætlar TM sér að vera með fjármögnun sem hluta af starfsemi sinni.

Í júlí var greint frá áhuga TM á kaupunum og að félagið ætti í einkaviðræðum við Klakka. Þá kom einnig fram að horft væri til þess að kaupverðið yrði 9,25 milljarðar.

Samkvæmt tilkynningunni verður kaupverðið greitt með handbæru fé, útgáfu á nýju hlutafé upp á 3 milljarða og sölu á eignum. Hefur lánsfjármögnun upp á 3 milljarða vegna kaupanna þegar verið tryggð.

Í tilkynningunni kemur fram að með kaupunum sé verið að byggja undir nýja stoð í rekstri TM. „Kaupin á Lykli eru í samræmi við stefnu TM og eftirleiðis mun starfsemi félagsins skiptast í þrjár jafn mikilvægar stoðir, vátryggingar, fjármögnun og fjárfestingar. Tækifæri eru til að bæta arðsemi af grunnrekstri Lykils. TM áætlar að hægt verði að ná fram töluverðum samlegðaráhrifum, bæði í tekjum og kostnaði, fjölga fjármögnunarkostum og ná niður fjármagnskostnaði. Þá er stefnt að því að gera fjármagnsskipan hagkvæmari.“

Sigurður Viðarson forstjóri TM.
Sigurður Viðarson forstjóri TM. mbl.is/​Hari

Í tilkynningunni kemur fram að TM telji kaupin hagfelld fyrir hluthafa og að áætlanir gerir ráð fyrir að hagnaður á hlut muni aukast um 20-30% á komandi árum.

Þann 30. júní námu heildareignir Lykils 40.186 m.kr. og þar af voru leigusamningar og útlán 32.330 m.kr. Þá var reiknað eiginfjárhlutfall (CAD) Lykils 29,2%. Efnahagsreikningur TM mun tæplega tvöfaldast við viðskiptin.

Boðað verður til hluthafafundar hjá TM þar sem nánar verður gert grein fyrir viðskiptunum og óskað eftir heimild hluthafafundar til útgáfu nýs hlutafjár. Á fundinum verður lögð fram tillaga um breytingu á tilgangi félagsins. TM er í dag vátryggingafélag, en verði tillagan samþykkt verður TM móðurfélag tveggja dótturfélaga, vátryggingafélags og fjármögnunarfélags.

Viðskiptin eru háð samþykki hluthafafundar TM, Fjármálaeftirlitsins og Samkeppniseftirlitsins. Gangi kaupin eftir er gert ráð fyrir að Lykill verði hluti af samstæðu TM frá næstu áramótum.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK