Borgun þarf að greiða kaupauka að fullu

Borgun þarf að greiða starfsmanninum kaupauka að fullu sem fyrirtækið …
Borgun þarf að greiða starfsmanninum kaupauka að fullu sem fyrirtækið hafði einhliða ákveðið að fella niður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Greiðslumiðlunarfyrirtækið Borgun hefur verið dæmt til að greiða fyrrverandi forstöðumanni alþjóðasviðs fyrirtækisins 1,6 milljónir auk vaxta vegna kaupauka sem fyrirtækið ákvað einhliða að fella niður eftir að starfsmaðurinn hætti störfum hjá fyrirtækinu.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu kemur fram að Borgun hafi átt frumkvæði að kaupaukakerfinu, en það byggði á því að hluti umsaminna launakjara var í formi kaupauka eða árangurstengdrar þóknunar. Fór upphæðin eftir því hvort ákveðin markmið deildarinnar, sem maðurinn fór fyrir, næðust og hvernig fyrirtækið gengi almennt. Var upphæðin ákveðin sem hlutfall af mánaðarlaunum hans og gat hæst orðið tvöföld mánaðarlaun.

Í málinu er tekist á um kaupauka sem kom til vegna ársins 2014. Samkvæmt reglum Fjármálaeftirlitsins mátti aðeins greiða út 60% kaupaukans, en fresta varð 40% í þrjú ár og átti því að koma til útgreiðslu kaupaukans í lok árs 2017.

Maðurinn hætti hjá fyrirtækinu eftir 17 ára starf um mitt ár 2017, en í mars 2018, þremur mánuðum eftir að hann átti að fá lokagreiðsluna fyrir árið 2014, var honum tilkynnt um að stjórn fyrirtækisins hefði ákveðið að afturkalla og fella niður ógreidda frestaða kaupauka hans vegna áranna 2014-2016 sem greiða átti í lok áranna 2017, 2018 og 2019.

Var ákvörðunin tekin í kjölfar athugunar FME á eftirliti með peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sem leiddi í ljós brotalamir í innri starfsemi deildarinnar sem hann veitti forstöðu. Gerði eftirlitið alvarlega athugasemdir við verklag alþjóðasviðsins. Taldi Borgun þar af leiðandi væru ekki lengur skilyrði til að greiða út frestaða kaupauka. Hins vegar fór Borgun ekki fram á endurgreiðslu á 60% greiðslunum sem þegar höfðu verið greiddar út.

Maðurinn byggði mál sitt hins vegar á því að um einhliða ákvörðun Borgunar hefði verið að ræða. Þá hefði fyrirtækið ekki gert athugasemdir við niðurstöðu FME og farið með málið fyrir dómstóla, en hann sagðist sjálfur hafa sent athugasemdir til Borgunar vegna niðurstöðunnar þar sem hann mótmæli þeim. Þá hafi verklag deildarinnar verið í samræmi við stefnu og verklagsreglur Borgunar. Hann taldi einnig að ef fella hefði átt niður greiðslu vegna verklags deildarinnar hefði átt að gera það gagnvart öllum starfsmönnum deildarinnar, en aðrir starfsmenn hafa fengið uppgerða kaupauka sína að fullu. Að lokum taldi hann ljóst að ársreikningar fyrirtækisins hefðu ekki sýnt nein neikvæð áhrif á afkomu félagsins.

Dómurinn tók undir röksemdir mannsins og dæmdi Borgun til að greiða honum 1,6 milljónir í kaupauka auk vaxta frá árinu 2015.

Dómur héraðsdóms.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK