Aðeins 70 á lista Creditinfo frá upphafi

Brynja Baldursdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo.
Brynja Baldursdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo. Eggert Jóhannesson

Aðeins um 70 fyrirtæki á landinu hafa undanfarin 10 ár ratað inn á lista Creditinfo yfir Framúrskarandi fyrirtæki að sögn Brynju Baldursdóttur, framkvæmdastjóra Creditinfo, í samtali við Viðskiptapúlsinn.

Fyrirtækið birtir í næstu viku í samstarfi við Árvakur lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki vegna rekstrarársins 2018. Listinn verður formlega birtur 23. október en samhliða honum birtir Morgunblaðið sérrit um listann ásamt forvitnilegum viðtölum við ýmsa einstaklinga sem stýra þessum fyrirtækjum. Viðburðurinn fer fram í Eldborgarsal Hörpu þar sem búist er við yfir 1.000 manns en honum verður einnig streymt í beinni útsendingu á vef mbl.is þar sem viðtölin munu einnig birtast.

„Það eru þarna fyrirtæki sem eru að gera góða mjög góða hluti og eru að skila miklu til samfélagsins. Við viljum vekja athygli á þeim og að þeim sé hampað. Við þurfum að gera það og tala um það sem vel er gert,“ segir Brynja í samtali við Viðskiptapúlsinn.

„Við erum að halda upp á 10 ára afmæli þessarar vottunar og það er gaman að segja frá því að af þeim rúmlega 1.500 fyrirtækjum sem hafa komist á listann á þessum 10 árum eru aðeins í kringum 70 sem hafa verið listanum öll 10 árin. Það sem kannski einkennir þessi fyrirtæki er fyrst og fremst sú staðreynd að þau sigldu betur í gegnum hrunárin heldur en flest önnur fyrirtæki gerðu og náðu að halda sér réttu megin við núllið í gegnum það tímabil,“ segir Brynja.

Ekki huglægt mat

Að sögn Brynju er ekki horft á þau fyrirtæki sem hagnast mest eða þvíumlíkt heldur er nóg að vera með jákvæða rekstrarniðurstöðu. Traustur rekstur og stöðugur eru þó lykilatriði.

Frá hátíðinni í fyrra.
Frá hátíðinni í fyrra. Haraldur Jónasson/Hari

„Í stuttu máli komast fyrirtæki á listann fyrir traustan rekstur. Það er númer eitt, tvö og þrjú. Það þarf að uppfylla skilyrðin þrjú ár í röð þannig að það er ekki nóg að eiga bara eitt gott ár. Á meðal þeirra skilyrða sem þarf að uppfylla er að rekstrarniðurstaðan þarf að vera jákvæð, það þarf að vera 20% eiginfjárhlutfall eða hærra, og eignir yfir 100 milljónir,“ segir Brynja og bætir því við að einnig sé horft á lánshæfisflokka Creditinfo.

„Tölurnar koma úr ársreikningum fyrirtækja nema ein breyta, sem reyndar byggist aðeins líka á ársreikningum en það er lánshæfismat Creditinfo sem byggir á nokkrum breytum í viðbót. En aðallega er þetta unnið upp úr tölum. Þannig að þetta er í rauninni ekki huglægt mat eða slíkt heldur eru þetta hreinar og klárar rekstrartölur sem horft er á,“ segir Brynja.

Creditinfo leggur mikla áherslu á að fyrirtækin sem rati á listann eigi það raunverulega skilið.

„Ástæðan fyrir því að þetta tekur svolítinn tíma er að við leggjum mjög mikla áherslu á gæðin á listanum. Að þarna séu fyrirtæki sem eiga það virkilega skilið að vera á þessum lista og séu með traustan grunn. Við förum þannig vel yfir öll fyrirtæki sem eru þarna og skoðum þau í bak og fyrir til þess að vera alveg handviss um að þetta sé allt saman klárt og rétt,“ segir Brynja.

Að sögn Brynju hefur listi Framúrskarandi fyrirtækja lengst verulega á undanförnum árum og viðburðurinn hefur að sama skapi stækkað í takti við það.

Listinn endurspeglar gengi íslensks atvinnulífs

„Þegar við gerum þennan lista í fyrsta skipti árið 2010 þá eru í rauninni síðustu þrjú árin þar að baki. Þar inni eru þessi hrunár þar sem að mörg fyrirtæki voru að berjast í bökkum. Í fyrsta skipti voru þetta 178 fyrirtæki. Þá leigðum við stóran fundarsal á Grand hóteli og héldum viðburðinn þar. Mér skilst að um 50 manns hafi mætt þá,“ segir Brynja en eins og fyrr segir er búist við yfir 1.000 manns í Hörpu á miðvikudaginn í næstu viku.

mbl.is/​Hari

„Það er alveg frábært að sjá hvað þessi viðburður og þetta verkefni hefur stækkað á milli ára. Á þessum 10 árum er mjög áhugavert að sjá það hvað fjöldinn og samsetningin á listanum endurspeglar í rauninni hvernig íslensku atvinnulífi gengur. Fyrstu árin og allt upp til ársins 2016—17 er fyrirtækjum að fjölga um 100 á milli ára. Sem sýnir þennan uppgang sem var í íslensku atvinnulífi á þessum árum, sem var að jafna sig eftir hrunið og ganga frá hrunmálum. En það hefur verið ákveðið jafnvægi á listanum síðustu þrjú ár,“ segir Brynja.

Það er eftirsóknarvert að komast á listann að sögn Brynju en starfsfólk Creditinfo fær iðulega símtöl frá fyrirtækjaeigendum og endurskoðendum sem vilja ganga úr skugga um að ársreikningurinn hafi ekki alveg örugglega borist til Creditinfo. Vottunin getur einnig haft raunverulega kosti í för með sér fyrir rekstur fyrirtækja.

Njóta fyrirgreiðslu

„Maður sér það auðvitað líka að fyrirtæki eru að nýta sér þetta og fyrir mörg þeirra skiptir þetta hreinlega miklu máli upp á reksturinn. Það er ákveðið gæðamerki að vera á þessum lista. Þessi fyrirtæki eru t.d. að njóta fyrirgreiðslu, fá betri eða meiri fyrirgreiðslu, eða þurfa að sýna minni tryggingar, eða önnur gögn til þess að fá fyrirgreiðslu. Þau eru að nýta sér þetta bæði innan lands og erlendis. Þannig að það er auðvitað hrein og bein notkun á þessum lista og ávinningur. En svo sjáum við líka að þetta er mjög gott fyrir starfsmenn. Það eru mörg fyrirtæki sem eru stolt af þessu og starfsmenn þeirra einnig. Það er auðvitað alltaf gaman, þótt maður viti kannski að manni gangi vel, að aðrir taki eftir því líka," segir Brynja.

Tvenn verðlaun, nýsköpunar- og samfélagsverðlaun, verða sérstaklega veitt á hátíðinni í næstu viku. Að sögn Brynju er ástæðan sú að þessi tvö atriði skipta bæði Creditinfo, en einnig íslenskt samfélag og atvinnulíf, miklu máli.

Verkfræðistofan Efla hlaut verðlaun fyrir samfélagslega ábyrgð í fyrra.
Verkfræðistofan Efla hlaut verðlaun fyrir samfélagslega ábyrgð í fyrra. Haraldur Jónasson/Hari

Þetta er okkur hjá Creditinfo svolítið hjartans mál. Við vildum koma þessu tvennu að í þessari umfjöllun um Framúrskarandi fyrirtæki en auðvitað er mikilægt að stunda nýsköpun og vera samfélagslega ábyrg til þess að vera framúrskarandi. En af því að viðurkenning okkar er byggð á hreinum rekstrartölum, og mælikvarðar á nýsköpun og samfélagslega ábyrgð eru kannski komnir skemmra á veg, þá var einhvern veginn ekki hægt að gera það hluta af viðurkenningunni. En það var ákveðið að fara þá leið að gera þetta svona. Við veitum nýsköpunarverðlaunin í samráði við Icelandic Startups þar sem þrír sérfræðidómarar velja fyrirtækið. Fyrir samfélagslega ábyrgð þá erum við að vinna með Festu, miðstöð um samfélagslega ábyrgð,“ segir Brynja.

Hlusta má á 31. þátt Viðskipta­púls­ins hér að ofan. Þá má einnig nálg­ast þátt­inn í gegn­um helstu podcast-veit­ur hjá Itu­nes, Spotify og Google Play.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Arionbanki
Arionbanki