Framúrskarandi fyrirtæki verðlaunuð í Hörpu

Fjöldi fólks sótti viðburðinn í Hörpu í dag, þar sem …
Fjöldi fólks sótti viðburðinn í Hörpu í dag, þar sem Creditinfo verðlaunaði framúrskarandi fyrirtæki. mbl.is/Árni Sæberg

Creditinfo verðlaunaði í dag framúrskarandi fyrirtæki fyrir árangur sinn á rekstrarárinu 2018. Í ár eru 874 fyrirtæki á listanum eða 2% allra skráðra fyrirtækja á Íslandi. Marel vermir nú efsta sæti listans í fyrsta sinn, en undanfarin ár hefur Samherji verið efst á listanum.

Í öðru sæti listans er Landsvirkjun og þar á eftir koma Hvalur, Össur, Samherji og Origo. Auk þess fékk Marel verðlaun fyrir framúrskarandi samfélagsábyrgð og fyrirtækið Men & mice var verðlaunað fyrir framúrskarandi nýsköpun.

Fyrirtækin sem eru framúrskarandi að mati Creditinfo raðast á listann eftir ársniðurstöðu síðasta rekstrarárs. Nokkur stór fyrirtæki detta af listanum í ár vegna taprekstrar á síðastliðnu uppgjörsári, svo sem Icelandair, Alcoa Fjarðaál og Skinney-Þinganes. Flest fyrirtæki á listanum eru flokkuð sem meðalstór eða 390 talsins, 238 teljast lítil og 246 stór fyrirtæki.

Sementsverksmiðjan er í efsta sæti í flokki meðalstórra fyrirtækja á listanum og þar á eftir Hreinsitækni og Nasdaq-verðbréfamiðstöð. Í flokki minni fyrirtækja var Kvikna efst á lista og þar á eftir komu Hókus Pókus og Init. Byggingarfyrirtækjum og fyrirtækjum í ferðaþjónustu fjölgar talsvert á listanum.

Brynja Baldursdóttir framkvæmdastjóri Creditinfo.
Brynja Baldursdóttir framkvæmdastjóri Creditinfo. mbl.is/Árni Sæberg

Brynja Baldursdóttir framkvæmdastjóri Creditinfo ávarpaði gesti í Hörpu og sagði í erindi sínu að á þeim 10 árum sem Creditinfo hefði unnið lista yfir framúrskarandi fyrirtæki í íslensku atvinnulífi hefði fyrirtækjum á listanum fjölgað úr 178 í 874.

„Í ár er þriðja árið í röð þar sem fjöldi fyrirtækja á listanum stendur nokkurn veginn í stað. Það þýðir að ákveðnu jafnvægi og stöðugleika sé náð sem hlýtur að vera fagnaðarefni þar sem stórar sveiflur eru ekki af hinu góða. Íslensk fyrirtæki standa frammi fyrir spennandi tækifærum á næstu árum, bæði á alþjóðavísu og hér heima, og verður spennandi að sjá hvernig listinn mun þróast næstu 10 árin í takt við íslenskt atvinnulíf,“ sagði Brynja, en auk hennar ávörpuðu Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, samkomuna.

Sérblaðið Framúrskarandi fyrirtæki fylgir Morgunblaðinu á morgun, auk þess sem sérstakur vefur um Framúrskarandi fyrirtæki ársins 2019 er kominn í loftið á mbl.is.

Frá viðburðinum í Hörpu í dag.
Frá viðburðinum í Hörpu í dag. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK