Iceland Seafood á markað í næstu viku

Bjarni Ármannsson, forstjóri Icelandic Seafood SIS.
Bjarni Ármannsson, forstjóri Icelandic Seafood SIS.

Hlutabréf Iceland Seafood verða að öllum líkindum tekin til viðskipta á aðalmarkaði Kauphallarinnar á þriðjudaginn í næstu viku. Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar. Útboði á bréfum félagsins lauk á föstudaginn, þegar 225 milljón hlutir voru boðnir út, en það er 9,6% hlutur í félaginu.

Tilboð í alla hlutina var samþykkt á genginu 9,5 krónur á hlut, eða fyrir samtals 2,14 milljarða. Samtals bárust tilboð fyrir 2.995 milljónir í útboðinu.

Meðal þátttakenda í hlutafjárútboðinu voru tveir stjórnarmenn, þau Magnús Bjarnason og Liv Bergþórsdóttir, en þau keyptu 210.526 og 263.158 hluti hvor.

Samhliða þessu var tilkynnt umað félagið Solo Holding, sem var í eigu Bjarna og Jakobs Valgeirs Flosasonar, hefði selt hluti sína til Sjávarsýnar, félags í eigu Bjarna og Jakobs Valgeirs ehf., í eigu Jakobs. Er Sjávarsýn nú skráð fyrir samtals 283,06 milljónum hluta, en markaðsvirði þeirra er í dag 2,7 milljarðar. Félag Jakobs, Jakob Valgeir ehf., er skráð fyrir samtals 262.374.884 hlutum, en markaðsvirði þeirra í dag er 2,5 milljarðar.

„Hluthöfum fjölgar um um það bil 100. Að stofninum til eru þetta íslenskir fagfjárfestar sem eru að kaupa þessi bréf,“ segir Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood, í samtali við ViðskiptaMoggann í dag.

„Við teljum að við séum góð viðbót inn á íslenskan hlutabréfamarkað. Áhætta okkar liggur fyrst og fremst utan Íslands og vaxtartækifærin líka. Við eigum að hafa úr stærra mengi tækifæra að spila og að geta boðið upp á ákveðna áhættudreifingu fyrir innlenda fjárfesta,“ segir Bjarni.

Viðskipti með bréf félagsins hafa átt sér stað á First North markaðnum í dag og er gengi félagsins þar nú skráð á 9,78 krónur á hlut.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK