Landsbankinn hagnast um 3,2 milljarða

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastóri Landsbankans.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastóri Landsbankans. mbl.is/Golli

Landsbankinn hagnaðist um 3,25 milljarða á þriðja ársfjórðungi ársins, en á sama tíma í fyrra var hagnaður bankans 3,8 milljarðar. Þegar horft er til fyrstu níu mánaða ársins er hagnaður bankans 14,36 milljarðar á móti 15,4 milljörðum á sama tíma í fyrra.

Vaxtatekjur drógust saman um rúmlega 700 milljónir á ársfjórðungnum og námu 9,6 milljörðum. Þá var bókfærð neikvæð virðisbreyting upp á rúmlega 1 milljarð og er neikvæð virðisbreyting það sem af er ári nú 3,4 milljarðar. Til samanburðar var neikvæð virðisbreyting 89 milljónir á þriðja ársfjórðungi í fyrra og 1,6 milljarðar á fyrstu níu mánuðum ársins.

Þjónustutekjur bankans jukust um rúmlega 200 milljónir á ársfjórðunginum og voru 2,8 milljarðar. Þjónustugjöld hækkuðu hins vegar einnig um tæplega 200 milljónir.

Rekstrartekjur bankans lækkuðu úr 12 milljörðum á þriðja ársfjórðungi í fyrra í 11,4 milljarða á þessum ársfjórðungi í ár. Rekstrargjöld lækkuðu um rúmlega 100 milljónir, eða úr 5,6 milljörðum í 5,5 milljarða.

Útlán aukist um 72,3 milljarða frá áramótum

Hagnaður fyrir skatta var 5,9 milljarðar á ársfjórðungnum, samanborið við 6,5 milljarða á sama tíma í fyrra. Bankinn borgaði 1,6 milljarða í tekjuskatt og 1,1 milljarð í sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki.

Frá áramótum hafa útlán bankans til viðskiptavina aukist um 72,3 milljarða og nema nú 1.137 milljörðum. Stærstur hluti af fjármögnun bankans er með innlánum viðskiptavina, en þau nema samtals 704 milljörðum. Hafa þau aukist um 10,7 milljarða frá áramótum.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar segir Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, að uppgjörið endurspegli stöðugan og góðan rekstur. „Kostnaður heldur áfram að lækka en tekjur hafa á hinn bóginn aukist. Kostnaðarhlutfall á tímabilinu var um 41,4% sem er lægra en á sama tíma í fyrra,“ segir hún.

Ber þess merki að umsvif í hagkerfinu hafa dregist saman

Staðan í efnahagslífinu kemur niður á lánasafni bankans að sögn Lilju. „Uppgjörið ber þess einnig merki að umsvif í hagkerfinu hafa dregist saman. Rekstrarumhverfi fyrirtækja er erfiðara og sú staða veldur nokkurri virðisrýrnun útlána.“

Lilja segir 340 fjölskyldur hafa fjármagnað fyrstu íbúðakaup sín hjá bankanum og í langflestum tilfellum hafi það verið með óverðtryggðum lánum.

142 milljarðar í arð á síðustu sjö árum

Bankinn greiddi ríkinu tæplega 5 milljarða arð í byrjun október vegna ársins 2018, en heildararðgreiðsla vegna 2018 er 9,9 milljarðar. Þar með hefur bankinn greitt ríkinu 142 milljarða króna í arð frá árinu 2013, eða á sjö árum.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK