Fráleit áform eða fagnaðarefni?

mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Stjórn Blaðamannafélags Íslands segir að fráleit aðför Íslandsbanka að ritstjórnarlegu sjálfstæði fjölmiðla þjóni ekki hagsmunum jafnréttisbaráttunnar og það verði að gera þær kröfur til banka í eigu almennings og þá sem stýra þar málum í umboði hans að þeir vandi betur til verka. Kvenréttindafélag Íslands fagnar aftur á móti áformum bankans. 

Fram hefur komið að Íslandsbanki hafi sett sér þá stefnu um að hætta að aug­lýsa hjá karllæg­um fjöl­miðlum. 

Íslandsbanki segir í tilkynningu á heimasíðu bankans að Íslandsbanki hafi sett sér þá stefnu að vera hreyfiafl til góðra verka. Í kjölfar stefnumótunar bankans hafi í samræmi við hana verið ákveðið að vinna að fjórum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna; lofslagsmálum, jafnrétti kynjanna, nýsköpun og menntun.

„Þessi stefna er að mati bankans í fullu samræmi við eigandastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki,“ segir bankinn.

Kvennréttindafélag Íslands segist í ályktun fagna áformum Íslandsbanka að vinna markvisst að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og sýna þannig samfélagslega ábyrgð í verki.

Fagna framtaki í jafnréttisátt

„Við fögnum framtaki þeirra að taka markviss skref í átt að aukinni umhverfisvernd og færa viðskipti sín yfir til þeirra fjölmiðla og fyrirtækja sem ekki búa við afgerandi kynjahalla.

Ef öll fyrirtæki, stofnanir og stjórnvöld leggjast saman á árar, er hægt að knýja fram nauðsynlegar breytingar til að auka jafnrétti kynjanna og tryggja framtíð komandi kynslóða,“ segir í ályktun félagsins.

Það kveður þó við annan tón í ályktun sem stjórn Blaðamannafélags Íslands samþykkti í dag. 

Þar segir, að fráleit aðför Íslandsbanka að ritstjórnarlegu sjálfstæði fjölmiðla þjóni ekki hagsmunum jafnréttisbaráttunnar og það verði að gera þær kröfur til banka í eigu almennings og þá sem stýra þar málum í umboði hans að þeir vandi betur til verka. 

Hugmyndir Íslandsbanka illa ígrundaðar

„Mun bankinn ekki auglýsa í Vikunni vegna viðvarandi  kynjahalla á ritstjórn og í hópi viðmælenda?  Mun bankinn ekki auglýsa í Fiskifréttum vegna viðvarandi kynjahalla á ritstjórn og í hópi viðmælenda?  Það var raunar Vikan sem setti á dagskrá mögulegt mansal í íslensku samfélagi og viðkomandi blaðamaður mátti skjóta máli sínu til Mannréttindadómstólsins til að fá réttingu mála sinna og tímaritið Ísafold mátti þola það að önnur af tveimur stærstu smásölukeðjum landsins neitað að dreifa blaðinu vegna umfjöllunar um nektardansstaði og þá starfsemi sem þar færi fram!

Það er því ekki nýtt að fjársterkir og valdamiklir aðilar í landinu reyni að hlutast til um umfjöllunarefni fjölmiðla og hafa áhrif á þau, en ömurlegt að upplifa það að fyrirtæki í eigu almennings hagi sér með þessum hætti. Allar slíkar tilraunir eru í andstöðu við alþjóðlegar skuldbindingar um frelsi fjölmiðla.

Ritstjórnarlegt sjálfstæði fjölmiðla og fjölmiðlamanna er algjört grundvallaratriði í lýðræðislegri umræðu nútímans. Annars er hættan sú að samfélagið sé ekki endurspeglað með hlutlægum hætti og þar með bíður traustið hnekki sem er grundvöllur lýðræðislns. Þessa vegna mun Blaðamannafélag Íslands ávallt berjast gegn hvers kyns tilraunum til að hafa áhrif á ritstjórnarlegt sjálfstæði fjölmiðla, hvort sem þar á í hlut Fjölmiðlanefnd, eigendur eða auglýsendur.  Fjölmiðlar og fjölmiðlamenn hafa verið aflvaki breytinga í íslensku samfélagi og átt stóran þátt í þeim framförum sem íslenskt samfélag hefur sannarlega tekið á undanförnum áratugum.  Það voru íslenskir blaðamenn og fjölmiðlar þeirra sem settu samkynhneigð á dagskrá í íslensku samfélagi, misnotkun barna, heimilisofbeldi og ástandið á uppeldisheimilum á árum áður, svo fáein dæmi séu tekin.  Og það má halda því fram með rökum að frekar halli á aldur og stétt í umfjöllun íslenskra fjölmiðla en kyn.

Nú verður því ekki trúað að umfjöllun fjölmiðla í gegnum tíðina um launakjör og sjálftöku forsvarsmanna bankakerfisins, sem hagar sér eins og ríki í ríkinu, nýjasta dæmið verandi ríflegur endurmenntunarstyrkur í Seðlabankanum, sem bankinn móaðist við í tæpt ár að veita upplýsingar um, valdi þessari einkennilegu ákvarðanatöku, en sporin hræða.  Hugmyndir Íslandsbanka í þessum efnum eru greinilega illa ígrundaðar og hljóta að verða lagðar til hliðar.  Bankinn getur lagt jafnrétti lið með mörgum öðrum hætti,“ segir í ályktun BÍ. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK