Vilja nú allt að 720 íbúðir á Garðheimareitinn

Finnur Árnason, forstjóri Haga.
Finnur Árnason, forstjóri Haga. mbl.is/Árni Sæberg

Fullmótuðum tillögum Haga um breytta notkun lóða á vegum félagsins í Reykjavík var skilað inn til samninganefndar Reykjavíkurborgar í sumar en tillögurnar voru á meðal þess sem fjallað var um á kynningarfundi fyrir markaðsaðila og hluthafa þess í morgun. Meðal annars er gert ráð fyrir mikilli fjölgun íbúða á Garðheimareitnum við Stekkjarbakka miðað við fyrri hugmyndir, auk tuga íbúða á horni Egilsgötu og Snorrabrautar.

Tillögunum var skilað inn í júní í sumar og eru að mati Haga í fullu samræmi við stefnu borgarinnar um fækkun bensínstöðva, þéttingu byggðar og hugmyndum um „kaupmanninn á horninu“ sem snýst um verslanir sem eru innan við eitt þúsund fermetrar að stærð og fólk getur nálgast fótgangandi.

Teikning/Hagar

Finnur Árnason, forstjóri Haga, gerði grein fyrir tillögum félagsins á fundinum en þær lóðir sem um er að ræða eru við Stekkjarbakka, Fjallkonuveg, Skúlagötu, Egilsgötu og Ánanaust. „Við erum með í okkar tillögum verslunarhúsnæði, íbúðarhúsnæði og orkusölu, eða bensíndælur fyrir utan verslanir, á þeim lóðum sem við höfum sett í forgang.“

720 íbúðir við Stekkjarbakka

Stærsta verkefnið væri Stekkjarbakki. Þar væri gert ráð fyrir allt að 720 íbúðum og 3.500 fermetrum undir verslun og þjónustu. Þar yrði þá annars vegar Bónusverslun og hins vegar orkusala á vegum Olís. Áður var gert ráð fyrir 400-500 íbúðum á svæðinu. Finnur segir í samtali við mbl.is að eftir samtal við Reykjavíkurborg hafi niðurstaðan verið sú að hægt væri að bæta við íbúðum á svæðinu.

Við Fjallkonuveg í Grafarvogi sæi félagið fyrir sér innan við eitt þúsund fermetra verslunarhúsnæði og íbúðir fyrir ofan auk orkusölu.

Hvað Skúlagötu varðar sagði Finnur á fundinum að einnig væri gert ráð fyrir innan við eitt þúsund fermetra verslunarhúsnæði þar og orkusölu á lóðinni. Hagar hefðu fundið fyrir miklum þrýstingi frá íbúðum á svæðinu og viðskiptavinum að Bónus kæmi þangað og það væri mat félagsins að þessi staðsetning væri vel til þess fallin.

Enn fremur væri gert ráð fyrir innan við þúsund fermetra verslun á horni Egilsgötu, og Snorrabrautar þar sem nú er rekin ÓB-bensínstöð, og íbúðabyggð með allt að 40 íbúðum. Þar yrði ekki áfram orkusala. Þá væri gert ráð fyrir verslun og orkusölu við Ánanaust.

Stærsta fjárfestingarverkefni Haga á árinu væri bygging á kæli- og frystivöruhúsnæði upp á 4.100 fermetra. Áætlaður kostnaður við húsnæðið væri um 1.600 milljónir króna og gert væri ráð fyrir að það yrði komið í fulla notkun. Hagar rækju í dag þrjár sérvöruverslanir í rekstri, 41 ÓB-stöð, 28 þjónustustöðvar Olís og 41 dagvöruverslun.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK