Hagnaður Icelandair 7,5 milljarðar á þriðja ársfjórðungi

Icelandair Group skilaði frá sér tilkynningu vegna þriðja ársfjórðungs fyrr …
Icelandair Group skilaði frá sér tilkynningu vegna þriðja ársfjórðungs fyrr í kvöld. mbl.is/Eggert

Tekjur Icelandair Group námu 65,6 milljörðum króna, 533,9 milljónum dala, á þriðja ársfjórðungi ársins og lækkuðu um 2% milli ára. Mikill sveigjanleiki í leiðakerfi Icelandair gerði félaginu kleift að auka farþegafjölda til Íslands um 27% á ársfjórðungnum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair Group.

EBIT hagnaður nam 10 milljörðum króna, 81,1, milljón dala, á fjórðungnum sem er hækkun um 0,3 milljarða króna á milli ára, þrátt fyrir kyrrsetningu MAX-flota flugfélagsins. Eigið fé í lok september nam um 62,2 milljörðum króna eða 500,9 milljónum dala.

Þá nam lausafjárstaða félagsins um 29,6 milljörðum króna í lok fjórðungsins sem samsvarar 238,5 milljónum dala. Eiginfjárhlutfallið 30. september var 30%.

Annað samkomulag við Boeing í höfn

Icelandair gekk frá öðru samkomulagi við Boeing í dag um bætur fyrir hluta þess tjóns sem félagið hefur orðið fyrir vegna kyrrsetningar MAX-flugvéla, til viðbótar við það samkomulag sem flugfélagið gerði við flugvélaframleiðandann á þriðja ársfjórðungi. Viðræður við Boeing um frekari bætur halda áfram, segir í tilkynningunni.

„Góður árangur hefur náðst í rekstri Icelandair Group, þrátt fyrir að uppgjör fjórðungsins hafi litast verulega af áhrifum kyrrsetningar MAX-vélanna. Sveigjanleiki í leiðakerfinu hefur gert okkur kleift að færa tíðni á milli áfangastaða og einbeita okkur að því að nýta flugflotann á arðbærum leiðum. Við höfum lagt áherslu á ferðamannamarkaðinn til Íslands að undanförnu til að mæta mikilli eftirspurn og munum halda því áfram. Íslensk ferðaþjónusta hefur notið góðs af þessari áherslubreytingu en við fluttum 30% fleiri farþega til landsins yfir háannatímann í ár en í fyrra,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair Group.

Horfur fyrir 2019 hafi batnað

Hann segir að vel hafi gengið að milda áhrif kyrrsetningar MAX-vélanna og að Icelandair hafi unnið markvisst af því að ná niður kostnaði og auka tekjur félagsins. Það hafi meðal annars verið gert með umbótum í leiðakerfinu, bættri tekjustýringu og betri nýtingu starfsmanna. Neikvæð áhrif kyrrsetningarinnar eru metin á bilinu 4,3 til 5,5 millljarðar króna.

Einnig hafi náðst mikill árangur í að bæta stundvísi félagsins á milli ára sem hefur á móti dregið verulega úr þeim kostnaði sem hlýst af röskunum í leiðakerfinu.

„Horfur fyrir árið 2019 hafa batnað og gerum við ráð fyrir talsverðum afkomubata á fjórða ársfjórðungi. Grunnrekstur félagsins er að styrkjast, eiginfjárstaða nam rúmlega 62 milljörðum króna og lausafjárstaða tæplega 30 milljörðum króna í lok fjórðungsins. Við erum því vel í stakk búin til að ná markmiðum okkar um að bæta arðsemi félagsins á komandi misserum,“ segir Bogi einnig í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK