Setja 5,3 milljarða í Alvotech

Hátæknisetur Alvotech.
Hátæknisetur Alvotech. Ljósmynd/Aðsend

Fjárfestingafélagið Yas Holding hefur gert samkomulag við Alvotech um kaup á nýju hlutafé og samstarfssamning um þróun, framleiðslu og sölu líftæknilyfja. Virði samkomulagsins er um 5,3 milljarðar króna (45 milljónir Bandaríkjadala) og felur í sér að Yas fái markaðsleyfi fyrir þrjú líftæknilyf sem eru í þróun hjá Alvotech og verða markaðssett á næstu árum. Yas Holding verður jafnframt eigandi að 2,5% hlut í fyrirtækinu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Alvotech.

„Yas Holding er alþjóðlegur fjárfestingasjóður með höfuðstöðvar í Abú Dabí og bætist nú í hóp hluthafa Alvotech. Núverandi fjárfestingar YAS nema um 87 milljörðum króna, tekjur fyrirtækisins eru um 250 milljarðar króna á ári og þar starfa um 5.000 starfsmenn. Yas mun markaðssetja lyf Alvotech í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku með samstarfsfyrirtækjum sínum. Líftæknilyfin sem um ræðir eru í hópi söluhæstu lyfja heims í dag en hliðstæðulyf Alvotech verða markaðssett þegar einkaleyfi frumlyfja renna út,“ samkvæmt fréttatilkynningu.

Í desember 2018 var tilkynnt um kaup japanska lyfjafyrirtækisins Fuji Pharma á um 4,2% hlut í Alvotech fyrir um 6,2 milljarða króna. Eins og áður er Alvotech í meirihlutaeigu Aztiq Pharma, undir forystu Róberts Wessman, stofnanda og stjórnarformanns fyrirtækisins. Auk Yas og Fuji Pharma er systurfyrirtækið Alvogen stór hluthafi en þar eru fyrir einir stærstu fjárfestingasjóðir í heiminum í dag, CVC Capital Management og Temasek sem er fjárfestingasjóður Singapore. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK