Svigrúm til vaxtalækkana

Nýjar íbúðir á Brynjureit í miðborg Reykjavíkur.
Nýjar íbúðir á Brynjureit í miðborg Reykjavíkur. Morgunblaðið/Eggert

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, segir of snemmt að fullyrða hvort vaxtalækkun Seðlabankans muni skila sér í lægri vöxtum af íbúðalánum.

Það kunni að skapast tregða gegn vaxtalækkun í fjármálakerfinu.

„Það gæti orðið einhver tregða gagnvart vaxtalækkunum. Vaxtalækkanir Seðlabankans hafa þó verið að skila sér í lægri vöxtum af íbúðalánum undanfarið. Sama má segja almennt í útlánavöxtum til fyrirtækja og heimila sem og innlánsvöxtum,“ segir Ingólfur.

Segir hann að innlánsvextir séu ekki komnir það lágt en að þeir myndi gólf.

„Vegnir innlánsvextir fyrirtækja og heimila eru um þessar mundir rétt um 2%. Það er því talsvert svigrúm til lækkunar þar enn. Miðlunarferlið ætti því ekki að vera heft af þeim sökum,“ segir Ingólfur.

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins.
Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins. Morgunblaðið/ Árni Sæberg

Lækkar vexti um 1,5%

Seðlabankinn lækkaði meginvexti í 3% síðasta miðvikudag. Var það fimmta lækkunin í röð en vextirnir voru 4,5% fyrir lækkunina í byrjun apríl.

Þá bendir Ingólfur á að miðlunarferli peningastefnunnar, eða stýrivaxtanna, sé miklu víðtækara og flóknara en í gegnum vexti íbúðalána einvörðungu.

„Þetta hefur svolítið gleymst í umræðunni. Því hefur reglulega verið haldið fram í gegnum tíðina að miðlunarferlið sé stíflað og er þá verið að horfa á einhverja mjög afmarkaða þætti miðlunarferlisins. Það þarf hins vegar að horfa á heildarmyndina. Vaxtalækkanir hafa áhrif á vaxtamun, gengið, eignaverð, væntingar út í gegnum vaxtaferilinn og verðbólguvæntingar og þar af leiðandi eftirspurn og verðbólgu,“ segir Ingólfur.

Með þetta í huga telur Ingólfur aðspurður að það sé alls ekki svo að vaxtatæki Seðlabankans sé orðið bitlaust.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK