Er verðið óeðlilega lágt eða of hátt?

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. mbl.is/​Hari

Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar segir að Landsvirkjun virði að sjálfsögðu ákvörðun gerðardóms sem skipaður var til þess að ákvarða söluverð raforku til járnblendiverksmiðjunnar Elkem og að ákvörðun gerðardómsins hafi verið ágætlega rökstudd.

Hann segir að gerðardómur um orkuverðið hafi falið í sér „umtalsverða hækkun“, sem skýrist þó að mestu af því samningurinn hafði lækkað verulega fyrir nokkrum árum vegna breytinga á norsku krónunni. Töluvert hefur verið fjallað um nýja raforkuverðið, en á ólíkan hátt þó, allt frá því í sumarbyrjun er gerðardómur var kveðinn upp.

Áhyggjur af of háu verði

Sveitarstjórnir Akranesskaupstaðar og Hvalfjarðarsveitar hafa lýst yfir áhyggjum sínum vegna sökum þess að Landsvirkjun hafi „knúið fram mjög miklar verðhækkanir á raforku til orkukræfs iðnaðar“ og kallað eftir því að stjórnvöld snúi þeirri stefnu við.

Þá hefur verkalýðsleiðtoginn Vilhjálmur Birgisson á Akranesi gagnrýnt nýja verðið harðlega og sagt það svo hátt að það ógni starfsemi fyrirtækisins á Grundartanga og gæti leitt til þess að fjöldi fólks missi lífsviðurværi sitt. Verið sé að „slátra“ grundvelli rekstursins.

Vilhjálmur haldið því fram að nýtt raforkuverð þýði að Elkem greiði 1,2-1,4 milljörðum meira fyrir raforkuna á ári hverju. Þetta er ansi erfitt að fá staðfest, enda er niðurstaða gerðardómsins trúnaðarmál á milli samningsaðila.

Er verðið óeðlilega lágt?

Ketill Sigurjónsson, framkvæmdastjóri vindorkufyrirtækisins Zephyr Iceland.
Ketill Sigurjónsson, framkvæmdastjóri vindorkufyrirtækisins Zephyr Iceland.

Aðrir hafa síðan nálgast umræðuna frá hinum endanum, þeirra á meðal Ketill Sigurjónsson, framkvæmdastjóri vindorkufyrirtækisins Zephyr Iceland.

Í upphafi mánaðar ritaði hann pistil á vef Kjarnans þar sem hann velti því upp hvort nýja orkuverðið til Elkem væri „í reynd svo lágt að það sé ígildi ríkisstyrks og þar með nánast óeðlilega lágt verð.“

Sagði hann viðbrögð Landsvirkjunar, sem sjá má nýlegri í Facebook-færslu fyrirtækisins hér að neðan, vera á þá leið að freistandi væri að velta því fyrir sér.

Forstjóri Landsvirkjunar ræddi einnig við mbl.is snemmsumars og sagði þá að Landsvirkjun hefði viljað fá hærra verð en gerðardómur ákvað.

Hörður segir í samtali við mbl.is að það sé ekki Landsvirkjunar að taka afstöðu til þess, hvort um „ígildi ríkisstyrks“ sé að ræða, en fyrirtækið hefur sent frá sér skilaboð um að orkuverðið sem gerðardómur ákvarðaði næði varla kostnaðarverði virkjana fyrirtækisins.

Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, komst að þeirri niðurstöðu í sumar að ekki væri um ríkisstyrk að ræða. „Orku­verðið var ákv­arðað af óháðum gerðardómi skipuðum sér­fræðing­um sem byggðu ákvörðun­ina á skýr­um og hlut­læg­um breyt­um sem end­ur­spegluðu markaðsskil­mála,“ sagði í til­kynn­ingu frá ESA í sumar.

„Þessi samningur fór til ESA sem mat hvort í honum felist ríkisstyrkur eða ekki og þeirra niðurstaða var sú að svo væri ekki. Það þarf að hafa í huga að það var Elkem sem ákvað að framlengja samninginn um 10 ár og vísa ákvörðun um rafmagnsverðið til gerðardómsins. Gerðardómnum bar að taka ákvörðun um nýtt rafmagnsverð með hliðsjón af sambærilegum rafmagnssamningum við stórnotendur í málmframleiðslu á Íslandi.  Gerðardómurinn gerði það og niðurstaðan er að verðið nær varla kostnaðarverði. Verðið er ekki langt frá kostnaðarverði og ég held að ESA hafi bara metið það þannig að hann væri nægilega nálægt kostnaðarverði þannig að þeir gerðu ekki athugasemdir,“ segir Hörður.

Nær ekki þeirri arðsemi eigin fjár sem stefnt er að

En hvað þýðir að samningurinn „nái varla kostnaðarverði?“ Er þá þessi samningur við Elkem, sem felur í sér sölu á um það bil 7% af allri þeirri orku sem Landsvirkjun framleiðir á ársgrundvelli, svo óhagfelldur fyrir orkusalann að Landsvirkjun tapar á honum?

Járnblendisverksmiðja Elkem á Grundartanga.
Járnblendisverksmiðja Elkem á Grundartanga. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Öll fyrirtæki þurfa að ná að lágmarki kostnaðarverði sínu til að geta staðið undir rekstrinum, í okkar tilfelli rekstri virkjana um land allt. Samningurinn skilar ákveðnum tekjum, nálægt því sem þarf, en nær því ekki að fullu,“ segir Hörður um þetta atriði.

Landsvirkjun hefur lengi stefnt að aukinni arðsemi af því eigin fé sem bundið er í virkjunum fyrirtækisins og segir Hörður að það vanti aðeins upp á að samningurinn skili þeirri arðsemi sem stefnt er að, þó að með endursamningum sé hún komin nær því sem fyrirtækið telji eðlilegt.

Vöxtur staðfesti samkeppnishæfni

Spurður um stöðuna á raforkumarkaði almennt segir Hörður að Landsvirkjun hafi verið að endursemja við marga aðila á undanförnum árum og einnig að fá nýja viðskiptavini og telji sig því bjóða upp á sanngjörn og samkeppnishæf kjör.

„Í heild erum við að endursemja að minnsta kosti á okkar kostnaðarverði,“ segir Hörður. „Á sama tíma verðum við að bjóða samkeppnishæf kjör miðað við það sem er verið að bjóða annarsstaðar. Ég held að vöxtur Landsvirkjunar á síðustu tíu árum sýni það að Landsvirkjun er að bjóða samkeppnishæf kjör. Við höfum bæði séð vöxt hjá núverandi viðskiptavinum og nær eini vöxturinn í þessum iðnaði í Evrópu og Bandaríkjunum er hér á landi, sem staðfestir samkeppnishæf kjör á raforku. Svo höfum við líka verið að fá nýja aðila til landsins sem hafa verið að byggja nýjar verksmiðjur og þeir hljóta að meta það svo að þau bestu kjör sem bjóðast séu hér.“

Verð á málmmörkuðum óeðlilega lág

Aðstæður á markaði eru það sem er að gera fyrirtækjum erfitt fyrir um þessar mundir, segir Hörður, en ekki orkuverðið sem þeim er boðið upp á hér á landi. Forstjórinn segir að Landsvirkjun sé alltaf í viðræðum við viðskiptavini sína af þessum sökum.

„Álverð og verð á kísilmálmi hefur verið mjög lágt um þessar mundir og hefur verið núna um nokkra stund og gerir öllum framleiðendum mjög erfitt fyrir, bæði hér heima og erlendis. Við svoleiðis aðstæður eru mjög fáir að auka framleiðsluna. Verð á málmmörkuðum þarf bara að vera hærra. Þetta er mjög óeðlilega lágt verð og markast mjög mikið af viðskiptastríði á milli Bandaríkjanna og Kína og á meðan það er þannig þá eiga allar verksmiðjur í heiminum erfitt uppdráttar,“ segir Hörður.

Vekur furðu að Vilhjálmur telji sig vera með tölurnar

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness. mbl.is/​Hari

Forstjórinn fæst ekki til þess að tjá sig neitt um þær fullyrðingar sem Vilhjálmur Birgisson hefur sett fram varðandi hækkunina á orkuverði til Elkem, að hún nemi 1,2-1,4 milljörðum á ársgrundvelli. En hann segir það vekja furðu að Vilhjálmur telji sig vera með þá tölu á hreinu.

„Ég vil ekkert tjá mig um hvort það sé rétt eða rangt hjá honum, en ef hann telur sig hafa þessar upplýsingar þá vekur það furðu. Það er alveg ljóst að þessar upplýsingar eru ekki komnar frá okkur,“ segir Hörður.

„En aðalatriðið er kannski það að í hans skrifum er hann að blanda saman þessu erfiða markaðsumhverfi sem er alveg óháð raforkuverðinu. Það er þetta gríðarlega lága verð á afurðum, verð á kísilmálmi hefur lækkað frá miðju síðasta ári úr 1.750 dollara niður í um 1.000 dollara. Það er það sem er vandamálið og er það algjörlega óháð raforkuverði eða einhverju öðru.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK