Sjóböðin hljóta nýsköpunarverðlaun

Frá afhendingu verðlaunanna.
Frá afhendingu verðlaunanna. Ljósmynd/Aðsend

Sjóböðin á Húsavík hljóta nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar árið 2019. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn á Center Hotels við Laugaveg í dag.

Samtök ferðaþjónustunnar, SAF, veita nýsköpunarverðlaun fyrir athyglisverðar nýjungar og er markmiðið að hvetja fyrirtæki innan samtakanna til nýsköpunar. Verðlaununum er ætlað að hvetja frumkvöðla landsins til dáða í ferðaþjónustu. Þetta er í sextánda skipti sem SAF veita nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar en þetta árið bárust 32 tilnefningar í samkeppninni um verðlaunin, að því er segir í tilkynningu.

Hótel Ísafjörður og Icelandic Lava Show hlutu nýsköpunarviðurkenningu

Að þessu sinni ákvað dómnefnd nýsköpunarverðlaunanna að tilnefna þrjú fyrirtæki sem áttu kost á að hljóta verðlaunin, en auk Sjóbaðanna á Húsavík hlutu Hótel Ísafjörður og Icelandic Lava Show nýsköpunarviðurkenningu ferðaþjónustunnar árið 2019.

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður SAF og formaður dómnefndar nýsköpunarverðlaunanna, gerði grein fyrir niðurstöðu dómnefndar, en hana skipuðu auk hennar þau Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála, og Helgi Þór Jónsson, eigandi Sponta og fulltrúi fyrirtækja innan SAF.

„Við erum ákafalega stolt að því að taka við þessum verðlaunum hér í dag,“ segir Jón Steindór Árnason, stjórnarformaður Sjóbaðanna á Húsavík, í tilkynningunni. „Frá því við opnuðum dyrnar að Sjóböðunum í ágústlok árið 2018 hafa viðtökurnar verið frábærar. Við sjáum það strax á okkar fyrsta heila ári í rekstri hversu mikil og jákvæð áhrif verkefni eins og þetta hefur á ferðaþjónustuna. Þannig hafa innlendir og erlendir gestir verið duglegir að heimsækja okkur og er vöxturinn stöðugur og góður,“ segir Jón Steindór og bætir við að framtíðin í ferðaþjónustu er björt.

„Við lítum á þessi verðlaun sem hvatningu til að halda áfram að byggja upp um allt land. Markmið okkar allra er að styrkja áfangastaðinn Ísland til framtíðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK