Stjórnvöld upplýsi um afleiðingar gráa listans

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leitar nýrra leiða til þess að leysa lönd af …
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leitar nýrra leiða til þess að leysa lönd af skuldaklafa. AFP

Meðal tillagna um leiðir til að stuðla að hagvexti á Íslandi er að auka gagnsæi kerfislega mikilvægra fyrirtækja sem ekki eru skráð á markað til þess að tryggja innviði íslensks efnahagslífs og orðspor þess, að því er fram kemur í samantekt skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um efnahagsástandið á Íslandi.

Þar segir að til þess að viðhalda háum lífskjörum og tryggja stöðugan vöxt til lengri tíma sé meðal annars mikilvægt að efla mannauð með úrbótum í menntakerfinu og að hjálpa innflytjendum á barnsaldri að aðlagast og nýta hæfileika sína.

Þurfa að upplýsa um gráa listann

Fram kemur í samantektinni að íslensk stjórnvöld hafi síðan 2018 tekið mikilvæg skref til þess að styrkja og auka virkni regluverks sem spornar við peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka – samþykkt fleiri frumvörp til laga, gert umbætur sem auka samhæfingu og aukið fjárveitingar – en þurfi að vinna hratt að öllum nauðsynlegum úrbótum sem FATF (alþjóðlegur starfshópur gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka) hefur lagt til.

Þá segir að íslensk yfirvöld og bankar hafi, áður en landið var sett á listann, haft frumkvæði að því að tryggja samskiptaleiðir innanlands sem og erlendis til þess að miðla upplýsingum um stöðu mála til þess að forðast hugsanlegar neikvæðar afleiðingar þess að Ísland yrði sett á gráa lista FAFT.

„Þrátt fyrir að hafa verið sett á gráan lista hafa fjármálamarkaðir Íslands ekki orðið fyrir miklum áhrifum,“ segir AGS. Hins vegar er sagt að þörf sé á að upplýsa almenning og fyrirtæki betur um hvaða merkingu og afleiðingar það kann að hafa að vera á listanum.

Hrósa yfirvöldum

Skjót viðbrögð yfirvalda sem hafa falið í sér minna fjarhagslegt aðhald og lækkun vaxta hafa verið rétt að mati AGS. Þá segir að viðbrögðin hafi verið til þess fallin að styðja við væntingar og draga úr neikvæðum áhrifum samdráttar í ferðamannaiðnaðinum. Jafnframt eru undanfarin hagvaxtarár sögð hafa skapað grundvöll til viðspyrnu.

„Í kjölfar vaxtar í fleiri ár hefur hægt umtalsvert á hagvexti. Truflun á framboði í ferðamannaiðnaðinum, sem hefur verið drifkraftur vaxtar síðustu fimm ár, og tilheyrandi óvissa hefur dregið úr neyslu og auknu atvinnuleysi. Líklegt er að hefjist hægt vaxtarskeið á næsta ári, en efnahagskerfið mun áfram vera viðkvæmt og eru til staðar umfangsmiklir áhættuþættir,“ segir í samantektinni.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK