Forsvarsmenn flugfélagsins Play, sem stefnir á jómfrúarflug fyrir lok árs, telja að heildarvirði félagsins verði um 79 milljarðar á árinu 2022, gangi áætlanir þeirra eftir.
Það ár er ætlunin að félagið verði með 10 Airbus-þotur í förum milli Íslands, Evrópu og Bandaríkjanna. Þetta kemur fram í gögnum sem kynnt hafa verið fjárfestum á undanförnum dögum.
Sömu áætlanir gera ráð fyrir að þeir fjárfestar sem leggja muni félaginu til 1,7 milljarða króna gegn 50% hlut í félaginu geti mögulega losað hlut sinn eftir þrjú ár með tólf- til þrettánfaldri arðsemi. Er þá gert ráð fyrir að eigið fé félagsins verði 350 milljónir dollara, jafnvirði 44 milljarða króna og skuldir þess 280 milljónir dollara, jafnvirði 35 milljarða króna, að því er fram kemur í umfjöllun um Play í Morgunblaðinu í dag.