Gengi hlutabréfa Walt Disney ekki verið hærra í 47 ár

Toy Story kemur úr smiðju Walt Disney Pictures.
Toy Story kemur úr smiðju Walt Disney Pictures.

Það er óhætt að segja að gengi hlutabréfa afþreyingarrisans Walt Disney sé nú í hæstu hæðum. Við lokun markaða á miðvikudag var gengi bréfanna 148,72 Bandaríkjadalir, sem jafnframt er hæsta gengi hlutabréfa fyrirtækisins í 47 ár, eða frá árinu 1972.

Alls hækkuðu hlutabréf Walt Disney um 7,3% á miðvikudag. Gengi bréfanna hélst í kjölfarið nokkuð stöðugt í gær og stendur nú í rétt rúmum 147 Bandaríkjadölum. Rekja má hækkunina miklu í fyrradag til nýrrar afþreyingarþjónustu, Disney+, sem nú á dögunum var hleypt af stokkunum.

Alls hafa ríflega 10 milljónir manna gerst áskrifendur að þjónustunni, sem jafnframt er talsvert meira en spár sérfræðinga höfðu ráðgert. Að því er fram kom í tilkynningu frá fyrirtækinu standa vonir til að innan fimm ára verði sú tala á bilinu 60 til 90 milljónir. Til samanburðar má nefna að áskrifendur Netflix eru nú um 60 milljónir talsins.

Alls hafa hlutabréf Walt Disney hækkað um 32% það sem af er ári. Það er umtalsvert meira en Dow Jones-vísitalan, sem þó hefur hækkað um 19% á sama tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK