Samningur HS Orku og HS Veitna dæmdur ólögmætur

Samningur HS Orku og HS Veitna um greiðslu þess síðarnefnda …
Samningur HS Orku og HS Veitna um greiðslu þess síðarnefnda á hluta lífeyrisskuldbindinga hefur verið dæmdur ólögmætur í Hæstarétti. mbl.is/Hjörtur

Samkomulag HS Orku og HS Veitna frá árinu 2011 um greiðslur HS Veitna á hluta af reiknuðum lífeyrisskuldbindingum sem hvíldu á HS Orku hefur verið dæmt ólögmætt í Hæstarétti. Staðfestir rétturinn þar með dóm Landsréttar sem hafði áður snúið við dómi héraðsdóms sem taldi samkomulagið lögmætt. Dómur í Hæstarétti féll í dag.

Upphaf málsins nær til ársins 2008 þegar Hitaveitu Suðurnesja var skipt upp í HS Orku og HS Veitur. Höfðu starfsmenn Hitaveitunnar til ársins 2001 greitt í lífeyrissjóði sem byggðu á eftirmannareglu, en þá eru lífeyrisgreiðslur ákveðnar sem eftirlaun og reiknast út frá launum sem greidd eru fyrir sambærilegt starf. Ekki er horft til ávöxtunar iðgjalda eins og fjölmargir lífeyrissjóðir gera.

Ljóst var að greidd iðgjöld vegna þessa stóðu ekki undir viðbótarlífeyrisréttindum í framtíðinni og því bar HS Orka ábyrgð á greiðslu kostnaðar af réttindum starfsmannanna sem voru umfram verðmæti greiddra iðgjalda. Var uppreiknuð viðbótarlífeyrisskuldbinding félagsins við skiptin 1.149 milljónir, en samkvæmt ársreikningi HS Orku frá 2017 er upphæðin komin niður í 742,5 milljónir.

Á þessum tíma voru félögin systurfélög og með sama stjórnanda, auk þess sem eigendur voru þeir sömu. Það hefur hins vegar breyst og er HS Orka nú í einkaeigu meðan HS Veitur eru í meirihlutaeigu sveitarfélaganna Reykjanesbæjar, Hafnafjarðarbæjar og Suðurnesjabæjar.

Árið 2011 gerðu félögin hins vegar með sér samkomulag um að HS Veitur myndu greiða 60% af lífeyrisskuldbindingunum. Árið 2015 gerðu HS Veitur hins vegar kröfu um að skuldbinding þeirra yrði fell niður þar sem hún væri byggð á ólögmætum grundvelli.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að samkomulagið væri bindandi, en það var meðal annars endurnýjað árið 2014.

Samningurinn ekki venjuleg viðskipti

Landsréttur sneri þeirri niðurstöðu hins vegar við og benti á að í skiptingaráætlun frá 2008 hafi ekki verið getið til um ábyrgð gagnvart lífeyrissjóðum vegna lífeyrisréttinda sem stofnuðust fyrir 2001. HS Veitur væru félag sem nyti sérleyfis til starfsemi sinnar, hvort sem er við dreifingu heits eða kalds vatns eða rafmagns. Þar sem HS Veitur hafi ekki verið skuldbundin til að taka á sig skuldbindingarnar nema í „venjulegum viðskiptum þar sem eðlilegt gagngjald kæmi fyrir“.

Þar sem HS Orka hafi aldrei greitt neitt slíkt gjald „verður að líta svo á að þessi gerningur feli í sér niðurgreiðslu á kostnaði félags í samkeppnisrekstri með fé félags er nýtur sérleyfis til starfsemi sinnar og er háð gjaldskrá sem á að tryggja félaginu greiðslu alls rekstrarkostnaðar. Niðurgreiðsla þessi skekkir samkeppnisstöðu á markaði og veitir stefnda óeðlilegt forskot á aðra aðila,“ segir í niðurstöðu Landsréttar sem í framhaldinu metur samninginn ógildan.

Skiptingu ekki breytt nema með því að endurtaka skiptingarferlið

Hæstiréttur staðfesti sem fyrr segir dóm Landsréttar og vísar meðal annars til þess að samkvæmt lögum skuli í skiptingaráætlun vera nákvæm lýsing á þeim eignum og skuldum sem yfirfæra skuli og úthlutað er til hvors félags. Hafi við skiptinguna fylgt greinargerð þar sem fram kom að skiptingarefnahagsreikningur sýndi allar eignir og skuldir í félögunum, en lífeyrisskuldbindingarnar voru hluti af efnahagsreikningi HS Orku og hafa verið það alla tíð síðan. Segir Hæstiréttur að lögformlegri skiptingu félagsins verði því ekki breytt eftir á, nema með því að endurtaka skiptingarferlið.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK