Heimilin auka lántökur

Lántökur íslenskra heimila jukust í októbermánuði miðað við fyrri mánuð.
Lántökur íslenskra heimila jukust í októbermánuði miðað við fyrri mánuð.

Íslensk heimili tóku ríflega 15 milljarða króna að láni hjá íslensku viðskiptabönkunum í októbermánuði. Jukust lánin um tæp 11% frá fyrri mánuði og hafa ekki verið meiri frá því í september í fyrra.

Langstærstur hluti þeirra lána sem heimilin tóku voru húsnæðislán með breytilegum vöxtum. Námu þau 14,3 milljörðum króna og jukust um 3,6 milljarða króna frá septembermánuði. Þetta kemur fram í gögnum Seðlabanka Íslands yfir ný útlán í bankakerfinu. Þau gögn ná aftur til ársins 2013 og þau sýna að á síðustu sex árum hafa fyrrnefnd lán með breytilegum vaxtakjörum aldrei verið viðlíka umfangsmikil í nokkrum mánuði. Tölur yfir árið 2019 sýna þó að hraður vöxtur hefur verið í þessum lánaflokki frá því í maí þegar útlánin námu 7,5 milljörðum og jukust úr tæpum 4 milljörðum í aprílmánuði.

Stærstur hluti skulda heimilanna liggur í húsnæði. Eggert Jóhannesson

Fastvaxtalán á undanhaldi

Sérstaka athygli vekur að íbúðalán með föstum vöxtum drógust saman í októbermánuði. Það þýðir með öðrum orðum að meira var greitt upp í þeim lánaflokki en sem nam nýjum lántökum. Dróst lánaflokkurinn því saman um tæpan hálfan milljarð í mánuðinum. Er það talsverður viðsnúningur frá septembermánuði þegar ný útlán með föstum vöxtum jukust um 1,4 milljarða króna. Frá ármótum og út septembermánuð námu ný útlán í þessum lánaflokki að meðaltali 3,9 milljörðum króna.

Óverðtryggðu lánin langstærst

Þegar rýnt er í hvers konar breytileg lán heimilin eru að taka um þessar mundir kemur í ljós að langstærstur hluti þeirra er óverðtryggður. Þannig voru þau 10,2 milljarðar króna af þeim 14,3 milljörðum sem runnu út í lánaflokkum með breytilegum vöxtum. Samkvæmt gögnum Seðlabankans hafa óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum aldrei rofið 10 milljarða múrinn fyrr en nú í október. Í september stóðu þau í 7,4 miljlörðum en það sem af er ári hafa þau numið að meðaltali 5,3 milljörðum króna í hverjum mánuði.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK