Skúli ver rekstrarmódel WOW air

Skúli Mogensen, stofnandi WOW air.
Skúli Mogensen, stofnandi WOW air. mbl.is/Eggert

Skúli Mogensen, stofnandi og fyrrverandi stjórnandi WOW air, segir að þrátt fyrir gagnrýnisraddir sé einfaldlega ekki rétt að rekstur WOW air hafi aldrei gengið. Félagið hafi skilað samtals milljarða hagnaði frá stofnun til byrjunar árs 2018, en stefnubreyting þegar farið var út í rekstur á breiðþotum hafi hins vegar lagt félagið. Þetta kemur fram í nýrri færslu Skúla á Facebook.

Skúli bendir á að velta WOW árið 2018 hafi verið 75 milljarðar og miðað við nýjan lista Frjálsrar verslunar yfir stærstu fyrirtæki landsins hefði WOW air átt að vera þar í 10. sæti.

„Ævintýralegur vöxtur WOW air hefur verið gagnrýndur og því hefur verið haldið fram að rekstur WOW air hafi aldrei gengið, lág fargjöld félagsins hafi verið ósjálfbær og að WOW air hafi niðurgreitt lág fargjöld með botnlausum tap rekstri. Þetta er einfaldlega ekki rétt,“ segir Skúli.

Bendir hann á að þrátt fyrir gríðarlega fjárfestingu í innviðum, þjálfun starfsfólks, flugflota, markaðssetningu og tækni og þróun, hafi félagið skilað afgangi fram til 2018.

Rifjar hann upp að félagið hafi flogið með tvær milljónir farþega til Íslands og að áætluð neysla þeirra hafi verið um 380 milljarðar, þar af 90 milljarðar árið 2018. Skatttekjur ríkisins vegna þessa hafi verið 54 milljarðar.

„Ég er óheyrilega stoltur af uppbyggingu WOW og þeim jákvæðu áhrifum sem WOW og ferðaþjónustan í heild sinni hefur haft í endurreisn Íslands eftir hrun. Það má læra margt af vexti og falli WOW en það er mjög auðvelt að vera vitur eftir á. Það sem felldi félagið var í grunninn að við fjarlægðumst upprunalega stefnu félagsins og fórum af lággjaldabrautinni og tókum inn breiðþoturnar,“ segir Skúli.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK