Flugáætlun Icelandair fyrir árið 2020 liggur nú fyrir með flugi til 40 áfangstaða. Áætlað er að einn nýr áfangastaður í Evrópu verði kynntur á næstu vikum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair. Þar segir að heildarframboð sæta verði 5,1 milljón og gerir félagið ráð fyrir að flytja 4,2 milljónir farþega á árinu. Þar segir jafnframt að á þessu ári hafi félagið flutt fleiri farþega til Íslands en nokkurn tíma áður, eða yfir 1,6 milljónir farþega á fyrstu 10 mánuðum ársins og að megináhersla verði áfram lögð á fjölgun farþega á mörkuðunum til og frá Íslandi.
Á næsta ári gerir félagið ráð fyrir að tíðni á flugi til Evrópu muni aukast um 2% á milli ára. Tíðni verður aukin til Kaupmannahafnar, Helsinki, Berlínar, Zurich, Madrid og Mílanó. Á móti verður dregið úr tíðni á nokkra áfangastaði í Evrópu, svo sem París, Frankfurt og Hamborg.
Sætaframboð til Norður-Ameríku dregst saman um 11% frá árinu 2019 sem skýrist aðallega af fækkun áfangastaða en eins og fram hefur komið mun Icelandair hætta flugi til San Francisco, Kansas City og Tampa . Þá mun félagið draga úr tíðni á ákveðna áfangastaði í Norður-Ameríku til að bregðast við markaðsaðstæðum.
Heildarsætaframboð félagsins dregst því saman um 4,8% miðað við 2019 en áherslubreytingar í leiðakerfi félagsins sem og áherslur í sölu- og markaðsstarfi munu stuðla að áframhaldandi fjölgun ferðamanna til Íslands.
Icelandair gerir ráð fyrir að Boeing 737 MAX-vélar verði komnar í rekstur í mars 2020.