Endurskoðunarrisar setji loftslagsmál á oddinn

Loftslagsmótmælendur stöðva för flutningabíla við dreifingarmiðstöð Amazon í Frakklandi. Róttækar …
Loftslagsmótmælendur stöðva för flutningabíla við dreifingarmiðstöð Amazon í Frakklandi. Róttækar aðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálum gætu haft töluverð áhrif á rekstrarforsendur fyrirtækja af ýmsum toga. AFP

Hópur fjárfesta, sem saman hafa yfir að ráða rúmlega 1.000 milljarða punda sjóðum, vilja þrýsta á stærstu endurskoðunarfyrirtæki heims að grípa tafarlaust til aðgerða vegna mögulegrar hættu af völdum loftslagsbreytinga. Segir hópurinn að verði loftslagsbreytingum ekki gefinn meiri gaumur í rekstrargögnum fyrirtækja gæti tjónið orðið meira en af síðustu fjármálakreppu.

Að sögn Reuters sendi hópurinn endurskoðunarrisunum fjórum – EY, Delotte, KPMG og PwC – bréf í janúar síðastliðnum þar sem lýst var áhyggjum af að loftslagsbreytingar væru með öllu undanskildar í bókhalds- og endurskoðunargögnum fyrirtækja. Segir hópurinn að endurskoðendur taki ekki með fullnægjandi hætti tillit til áhrifa þess á rekstur fyrirtækja að þjóðir heimsins kunni t.d. að freista þess að draga stórlega úr losun koltvísýrings til að fullnægja ákvæðum Parísarsáttmálans.

Fjárfestahópurinn ákvað nýlega að birta bréf sitt opinberlega og mun í framhaldinu þrýsta á helstu gas- og olíufélög um að þau taki betur tillit til áhrifa loftslagsbreytinga, m.a. með það fyrir augum að gerðar verði vandaðri langtímaspár um þróun á verði olíu og gass. „Endurskoðendur þurfa að vera á verði og láta í sér heyra þegar stjórnendur vanmeta mögulegt tap og tjón [vegna loftslagsmála],“ segir Natasha Landell-Mills, sem fer fyrir fjárfestahópnum.

Í apríl síðastliðnum varaði Mark Carney, stjórnandi Englandsbanka, við því að markaðir gætu tekið skarpa dýfu ef fjárfestar vanræktu að taka með í reikninginn áhættu af völdum loftslagsbreytinga. Hjá Englandsbanka er núna unnið að álagsprófi til að mæla hvernig bankar og tryggingafélög gætu staðið af sér tjón af völdum örra loftslagsbreytinga. ai@mbl.is

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK